„Það er daglega lífið sem skiptir máli og þar er í mestu uppáhaldi hjá mér að vera með barnabarninu mínu, honum Hauki Helga Pálmasyni. Hann er átta mánaða og ég sé ekki sólina fyrir honum. Ég fæ hann lánaðan reglulega og passa hann þegar foreldrarnir eru í vinnu. Hann er broshýr og algjör rúsína, en ég fékk að halda honum undir skírn,“ segir Þuríður Sigurðardóttir, söngkona og myndlistarkona.
Þuríður fagnar um þessar mundir 45 ára söngafmæli og heldur af því tilefni þriðju afmælistónleikana í Salnum í Kópavogi í október.
„Þetta byrjaði á tónleikum í Bátahúsinu á Siglufirði um páskana. Þá kom upp að ég ætti 45 ára söngafmæli, sem ég hafði reyndar alveg steingleymt sjálf þar sem ég var á fullu að halda upp á afmæli Ragga Bjarna og Ómars Ragnarssonar. Á Siglufirði hélt ég tónleika með Vönum mönnum og þeir gengu svo vel að við ákváðum að halda samstarfinu áfram. Mér til mikillar furðu seldist þegar upp á fyrstu tónleikana og nú er einnig uppselt á þá næstu svo við áætlum að halda þriðju tónleikana í október. Svo virðist sem fólk vilji heyra upphaflegu söngvarana syngja gömlu góðu lögin,“ segir Þuríður.
Á tónleikunum fær Þuríður til liðs við sig þá Birgi Ingimarsson, Magnús Guðbrandsson, Gunnar Gunnarsson og Grím Sigurðsson en sérstakur gestur er Jóhann Vilhjálmsson. Hún segir samstarfið hafa verið ofsalega skemmtilegt. Sérstaklega þar sem hún hafi ekki sungið mikið undanfarið og helgað krafta sína myndlistinni síðan hún útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2001.
„Ég er afskaplega þakklát fyrir þessa tryggu hlustendur mína. Þetta er búið að vera algjört ævintýr og viss nostalgía á tónleikunum þar sem fólk dettur svolítið aftur í tímann. Ég syng lög frá því ég var krakki og síðan það sem tilheyrir þessari kynslóð sem ég elst upp með; þessari ungu kynslóð sem allt í einu átti sinn tilverurétt, tónlist og tísku sem var okkar og allt var þetta svo nýtt og ferskt,“ segir Þuríður.