Garðar Jóhannsson knattspyrnukempa hjá Stjörnunni var á dögunum útnefndur markakóngur Pepsi-deildarinnar. Skoraði Garðar samtals 15 mörk í leikjum sumarsins. Finnur fékk að heyra hvernig venjuleg vika er hjá fótboltahetju.
Mánudagur Fór með gullskóinn í skólann hjá stóra stráknum mínum til að leyfa honum að sýna vinum sinum. Þar ætlaði allt um koll að keyra og sá stutti montinn af pabba. Fór svo á síðustu æfingu fyrir frí, ungir-gamlir. Léttur sigur hjá gömlum og naked run hjá ungum. Tók ekki skóinn með.
Þriðjudagur FIFA12-session í Playstation með stóra stráknum mínum og mági, eitt tap og fimm sigrar. Ætti að duga til að komast í Evrópukeppni.
Miðvikudagur Kíkti inn hjá Dóra í Mjóddinni í hádeginu, besti hádegismatur í heimi. Snitselið klikkar ekki.
Fimmtudagur Rafvirkinn ég setti upp fullt af ljósum í nýja húsinu hjá tengdó, tengdamóður minni til mikillar gleði. Bauð þeim svo mat og endaði kvöldið með því að horfa á nokkra Damages-þætti með konunni, ágætis maraþon í gangi.
Föstudagur Sá um æfingu hjá 7. flokki Stjörnunnar og stóri strákurinn minn sem þar æfir í skýjunum með að pabbi væri þjálfarinn. Aðeins of mikið væl fyrir minn smekk, held mig við 5. flokk. Eldaði svo dýrindis Lasagna (from scratch) um kvöldið og bakaði eplaköku og bauð mömmu & co. í mat. Allir rúlluðu út.
Laugardagur Tryllt veður og engin æfing hjá 5. flokki. Fór svo í Stjörnuheimilið og tippaði, alveg ömurlegar þessar landsleikjahelgar. Fékk bara 8 rétta. Brunaði síðan til Keflavíkur í skírn hjá lítilli frænku og tók svo annað FIFA12-session um kvöldið.
SunnudagurLetidagur með fjölskyldunni sem endaði þó með því að Kringlan var þrædd og öll barnatækin prófuð. Litli strákurinn minn í essinu sínu.