Birgittu Birgisdóttur leikkonu er margt til lista lagt. Þrátt fyrir nokkuð stuttan feril hefur hún aldeilis látið til sín taka á leiksviðinu og meðal annars var hún tilnefnd til Grímuverðlaunanna árið 2011 fyrir hlutverk sitt í Fólkinu í kjallaranum.
Birgitta fer núna með eitt af aðalhlutverkunum í verkinu Kirsuberjagarðinum eftir Tjekhov sem sýnt er í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Á nýju ári mun hún svo leika í Eldhafi eftir Wajdi Mouawad.
Birgitta tók sér tíma milli sýninga til að deila með lesendum Finns nokkrum leyndarmálum. Hvern hefði t.d. grunað að hún horfði á hryllingsmyndir með lokuð augun?
1. Ég elska rússíbana og vatnsrennibrautir og önnur „spennu“tæki. Gæti orðið háð adrenalínkikkinu.
2. Það eru ekki margir sem vita af þessu en ég hreinlega elska myndina Sleepless in Seattle. Erfitt að viðurkenna það – held það þyki ekki mjög töff – en það er samt staðreynd.
3. Varð Íslandsmeistari í miniboltakörfu þegar ég var 12 ára, með Breiðabliki að sjálfsögðu!
4. Ég er frekar félagsfælin.
5. Á leynistað á Ítalíu, norðarlega, skammt frá Mílanó.
6. Ég baka sjúklega góðar pítsur.
7. Er í tennisklúbbi (smápressa Sindri).
8. Á verðlaunagrip fyrir 3. sæti á tennismóti 1992.
9. Ég horfi á hryllingsmyndir með lokuð augun 80% af tímanum, en finnst það alltaf jafnhressandi.
10. Finnst Grænland merkilegt land fyrir svo margar sakir, ekki síst menningu sína.
11. Er með söfnunaráráttu, hendi helst engu.
12. Ropa án þess að gera mér grein fyrir því. Getur farið fyrir brjóstið á mörgum...
13.Ég les mér til um fornleifafræði í frítíma mínum.
14. Færi oftar á skíði ef það snjóaði meira hér á höfuðborgarsvæðinu, það er uppáhaldssportið mitt.
15. Trúi á tröll og huldufólk.