Leikhópurinn Vesturport, í samvinnu við Borgarleikhúsið, er á ferð með sýninguna Faust í Suður Kóreu um þessar mundir. Til þess að slaka á milli sýninga fór hópurinn saman í heilsulind sem státaði af heitum og köldum pottum. Meðlimir Vesturports blogga á meðan á ferðinni stendur og þar kemur fram að enginn hafi verið í fötum í heilsulindinni.
„Þar var ekki alveg sami lúxus og við sáum fyrir okkur heldur var þetta samansafn af fólki úr sveitinni að baða sig og hanga í heitum og köldum pottum... og að sjálfsögðu voru allir naktir… þetta var ansi fyndin upplifun.. við komumst lífs af og ansi hrein FRESH FRESH,“ segir á blogginu.
Í kvöld mun Vesturport frumsýna Faust í JinJu leikhúsinu. Leikhópurinn er himinlifandi með samvinnuna við Kóreubúa.
„Það er ekki að spyrja að því að samvinnan við þá kóresku hér í leikhúsinu er fullkomin, en þetta er sama lið og var með okkur í Sól. Svo er íslenska tæknifólkið SNILLINGAR, þannig að allt gengur súper vel. Akkúrat núna er tæknirennsli þar sem leikarar fara í gegnum þær breytingar sem þarf að gera, því ekki eru öll leikhús eins í heiminum.“