Fjarri öllum ys og þys

Hemmi Gunn.
Hemmi Gunn. Sigurgeir Sigurðsson

Hemmi Gunn segir geta verið gott að vera einn um jólin. Hann gefur sér tíma á áramótum til að íhuga liðið ár og leggja grunn að því nýja.

Elstu jólaminningar Hermanns Gunnarssonar eru úr Vesturbænum, þar sem fjölskyldan bjó í fjórlyftu húsi, hálfgerðu ættaróðali, þar sem andi KR sveif yfir vötnum eins og annars staðar í þeim bæjarhluta. „Þarna bjuggum við öll, hvert á sinni hæðinni. Afi minni Gísli Guðmundsson skipstjóri átti húsið, og hún amma Sigríður stýrði Vesturbænum með sínu lagi, enda kraftmikil kona. Þarna voru líka pabbi og bróðir hans Guðmundur Gíslason, sem síðar átti B&L, og allur skarinn undir verndarvæng afa og ömmu. Minningarnar frá þessum tíma eru afskaplega ljúfar,“ segir Hemmi.

Það var merkileg tilviljun að báðir afar Hemma höfðu alist upp í Dýrafirði, en þó aldrei þekkst enda samgöngur innan fjarðarins slæmar. Báðir fluttust til borgarinnar, giftust og fóru að reka heimili, og báðir höfðu tileinkað sér sömu jólasiðina. „Úr Dýrafirðinum höfðu þeir vanist að á aðfangadag jóla væri kjötsúpa höfð í matinn. Kjötsúpa þótti ekki fínn hátíðamatur, en þessi siður hélst áfram þó að báðir yrðu ágætlega efnaðir. Sigríður amma eldaði súpuna fyrir afa á meðan hún lifði, og hefðin færðist áfram til næstu kynslóðar. Á þessum árum man ég að kjötsúpa var í öllum pottum í húsinu á aðfangadag.“

Súpan ekki nógu fín

Hemmi hlær og minnist þess þegar einn bræðra föður hans hætti skyndilega að elda kjötsúpuna og rauf þessa helgu fjölskylduhefð. „Þá var hann farinn að umgangast svo fínt fólk að hann sagðist hreinlega ekki geta sagt vinum sínum að hann borðaði kjötsúpu á aðfangadagskvöld.“

Hemmi fær sér enn kjötsúpu endrum og sinnum, þó að hann hafi í seinni tíð lagt niður þann sið að borða þann góða mat yfir jólin. „Samt er ekki laust við að ég sakni þessa matar þegar jólin ganga í garð. Ég man hvað mamma var mikil matráðskona, og eldaði kjötsúpu reglulega, en lét þó vera að elda súpuna í eins og tvo mánuði fyrir jól, svo allir væru nú orðnir ögn hungraðir í að fá súpu á ný.“

Hemmi hefur líka upplifað jól á fjarlægum slóðum. Hann bjó t.d. um nokkurra ára skeið á Taílandi og rak þar veitingastað sem varð að einskonar íslenskri félagsmiðstöð á jólum. „Ég fór reyndar út til þess að skrifa nokkra punkta fyrir ævisögu sem svo margir höfðu beðið mig um í hér um bil 40 ár. Ætlunin var að dveljast í Taílandi í þrjá mánuði en það urðu tvö og hálft ár,“ segir Hermann en hann fékk kokkana sína til að elda íslenska jólarétti og tók á móti miklum fjölda íslenskra matargesta á aðfangadag. „Það var m.a. elduð skata á staðnum og var greinilegt að kokkarnir höfðu aldrei fundið annan eins óþef.“

Einn og alsæll

Þá hefur Hemmi tekið upp á því að halda jólin aleinn, og segir það fjarri því slæma leið til að verja aðfangadegi. „Þegar þetta fór að spyrjast út held ég reyndar að vinir mínir og ættingjar hafi haldið að ég væri endanlega að ganga af göflunum. Jólahaldið hefur þá farið þannig fram að ég reyni að klára undirbúninginn tímanlega, undirbý matinn og geng svo til jólamessu í Neskirkju. Þegar heim er komið kveiki ég síðan á kertum, hlusta á messuna í sjónvarpinu og gæði mér á jólamatnum, hringi svo í börnin mín og systkini til að óska gleðilegra jóla. Þetta eru alveg ótrúlega falleg jól í minningunni.“

Hemmi hefur tekið upp á svipaðri einveru á gamlárskvöld. „Ég hef ekki viljað nota það kvöld til að skemmta mér úti á lífinu. Fór á áramótadjammið eitt árið og það voru bara mistök. Núna er orðið að órjúfanlegri hefð hjá mér, eftir að hafa horft á Skaupið og borðað góðan mat með ættingjum og vinum, og knúsað fólkið í kringum mig á miðnætti, að ég finn mér rólegan stað, tek símann úr sambandi og kveiki á eins og 30-40 kertum. Ég slaka á, og framkvæmi einskonar innhverfa íhugun þar sem ég fer á heiðarlegan hátt yfir árið sem var að líða og tek ákvörðun um hvernig ég vil láta nýja árið verða.“

Undraheimur í sveitinni

Um nokkurra ára skeið hefur Hermann svo haldið jólin í Dýrafirði. „Þar býr kona sem ég kalla fóstru mína. Hún hafði búið í Vesturbænum og kom auga á að ég gat ekki gengið heldur bara hlaupið, svo ég yrði fínn kúasmali,“ segir Hemmi en hann dvaldist mörg sumur í sveitinni hjá Unni Hjörleifsdóttur og Valdimar Þórarinssyni. „Þeim varð sjálfum ekki barna auðið, en voru með tugi barna í sveit, og fjarska barngott fólk. Nú er hún Unnur 83 ára gamall unglingur, og býr ein úti í Haukdal í Dýrafirði, á slóðum Gísla Súrssonar, og þar ver ég yfirleitt um tveimur vikum í lok desember ár hvert.“

Hermann segir jólin í sveitinni göldrum líkust. „Það eru sjö kílómetrar í næsta bæ, og síðustu átta árin hefur alltaf verið einstaklega fallegt veður bæði á aðfangadagskvöld og gamlárskvöld: logn og hjarn yfir öllu, tunglið lýsir upp leiksviðið og ró í þessum eyðidal þar sem við dveljum tvö saman með húsdýrum og hundi. Umvafin fegurð, friði og algjörri innri ró.“

Í reiðileysi í Kringlunni

Hemmi vill gjarna reyna að kúpla sig út úr jólaösinni, og raunar er honum alveg fyrirmunað að fara inn í verslunarmiðstöðvar yfir höfuð. „Ég er með einhvers konar fóbíu fyrir stórmörkuðum, veit ekkert hvað ég á að kaupa eða hvert ég er að fara. Í fyrra þurfti ég nauðsynlega að fara í Smáralind og var mættur við dyrnar kl. 10, fyrsti maður inn í hús og hljóp eins og vitleysingur í leit að því sem mig vantaði,“ segir hann. „Ég hef svo gert þrjár heiðarlegar tilraunir til að fara í Kringluna, og man eftir einu skiptinu sem ég fór með einni af dætrum mínum. Ég endaði ráfandi í algjöru reiðileysi og varð það fljótt úr að setjast aftur út í bíl og halda niður á Laugaveg, þar sem ég kannast þó við mig.“

Kjötsúpa að hætti Hemma

¾-1 kg sérvalið (súpu) kindakjöt

2-2 ½ l vatn

1 ½ matskeið salt

30 g hrísgrjón

½ kíló gulrófur

250 g kartöflur

150 g hvítkál

250 g gulrætur

1 msk. söxuð steinselja

1 laukur eða blaðlaukur

150 g blómkál

Aðferð Kjötið er haft í frekar smáum bitum og soðið í 25 mín.

Grjónin þvegin úr köldu vatni og látin út í, soðið áfram í 20 mín.

Grænmetið er hreinsað, flysjað og smækkað og soðið með síðustu 15 til 20 mín.

Þá er ómissandi að bera fram með þessu rauðkál og jafnvel rauðrófur.

Sigurgeir Sigurðsson
Sigurgeir Sigurðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda