Leikkonan Demi Moore er undrandi á því að fólki finnist hún vera of grönn. Hún bjóst aldrei við því að verða í þeirri stöðu. Árið 2011 var erfitt ár hjá leikkonunni, sér í lagi þegar kom í ljós að eiginmaður hennar, Ashton Kutcher, hafði haldið framhjá henni á sex ára brúðkaupsafmæli þeirra.
Í framhaldinu skildu þau og í kjölfar þess grenntist Moore töluvert. Stjarnan segist ekki taka gagnrýnina nærri sér og segist hafa það gott. Hún ræddi þessi mál við Harper´s Bazaar.
„Fólk sagði við mig að ég væri allt of mjó og liti ekki vel út. Ég hélt ég myndi aldrei lenda í því,“ sagði í Moore í viðtali við blaðið. Hún játaði að hafa haft lélegt sjálfstraust á sínum yngri árum og hafa haft miklar áhyggjur af útliti sínu. Í dag væri hún hinsvegar sátt við sig.
„Ég hef átt í ástar- og haturssambandi við líkama minn. Ég hef oft verið á skjön við hann og hann hefur látið illa að stjórn. Ég átti í erfiðleikum með þyngdina og fékk það á tilfinningu að ég gæti ekki borðað það sem mig langaði í. Þetta olli mikilli togstreitu.“
Skilnað hennar og Ashton Kutcher ber á góma. Hún segist þurfa að hafa skipulag á lífi sínu og það sé erfitt fyrir hana að hafa allt í upplausn.
„Það hræðir mig mest að vita ekki allt og ég verð alltaf að hafa stjórn á hlutunum. Ég verð óörugg þegar ég er ekki með allt á hreinu og get ekki treyst því að mér sé sagt satt.“