Fyrsta krufningsskýrsla leiðir í ljós að söngkonan Whitney Houston hafði tekið inn róandi lyf þegar hún lést síðastliðinn laugardag. Lík hennar fannst á fjórðu hæð á hótelherbergi í Beverly Hills og var hún úrskurðuð látin kl. 03.55 að staðartíma.
Á herbergi söngkonunnar fundust lyfseðilsskyld lyf eins og lórezepam, valíum og xanax.
Heimildarmaður segir í samtali við RadarOnline.com að fleiri niðurstöður muni liggja fyrir í lok vikunnar.
„Það mun koma í ljós seinna í þessari viku hvaða lyf söngkonan tók inn og í hvaða magni,“ sagði heimildarmaður í samtali við vefinn.
Það getur þó tekið allt upp í sex vikur að fá nákvæmar niðurstöður.
Á síðasta ári lék Houston í endurgerð kvikmyndarinnar Sparkle. Samstarfsmenn hennar sem unnu með henni í myndinni segja að það hafi verið allt í lagi með hana á meðan á tökum stóð. Og að hún hafi komið á óvart því hún var svo skemmtileg.
„Við erum virkilega sorgmædd yfir hörmulegu fráfalli Whitney Houston. Tökum á Sparkle var nýlokið þegar hún féll frá. Við biðjum fyrir fjölskyldu hennar og vinum,“ sagði Bishop T.D. Jakes, framleiðandi myndarinnar.