Leikkonan Teri Hatcher, sem fer með eitt af aðalhlutverkunum í Aðþrengdum eiginkonum, segir að ferð í Bláa lónið hafi verið mikil upplifun. Frá þessu er sagt á vef tímaritsins People. Þar er leikkonan spurð hver sé besta heilsulind sem hún hafi prófað. Hún svarar því að Bláa lónið á Íslandi sé í mestu uppáhaldi.
Leikkonan kom til Íslands í febrúar árið 2002 til að taka þátt í V-deginum sem haldinn var 14. febrúar það ár. Hún kom fram í Borgarleikhúsinu þar sem V-deginum var fagnað með dansi, söng, leik og tónlist. Á dagskránni flutti Hatcher atriði úr Píkusögum eftir Eve Ensler, sem er einn af stofnendum V-dagssamtakanna sem stofnuð voru 1998. Leikkonan lék í uppfærslu á Píkusögum sem sýnd var á Broadway í New York. Upp frá því hefur hún lagt lóð sín á vogarskálarnar í baráttunni gegn kvennaofbeldi.
Leikkonan sagði í samtali við mbl.is að hún hefði gjarnan vilja kynnast inntaki leikritsins á sínum yngri árum.
„Ég minnist viðbragða karlkyns áhorfanda að Píkusögum, sem óskaði þess að hafa kynnst inntaki leikritsins á sínum yngri árum svo hann hefði náð betur til kvenna,“ sagði Hatcher. „Margir karlar voru mjög tregir til að koma á sýninguna og vissu ekki á hverju var von, en yfirleitt skemmtu þeir sér hið besta þegar á hólminn var komið.“