Heimildarkvikmyndin Town of Runners verður frumsýnd á Tribeca-kvikmyndahátíðinni í New York hinn 19. apríl. Annar framleiðanda myndarinnar er fyrirtæki Kristínar Ólafsdóttur, Klikk Productions. Þekktasta mynd framleiðslufyrirtækis hennar hingað til er heimildarmyndin Sólskinsdrengurinn í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Sú mynd, um einhverfa drenginn Kela, hefur farið sigurför um heiminn.
Town of Runners er leikstýrt af Jerry Rothwell, en hann hlaut verðlaun Tribeca Film Festival á síðasta ári fyrir heimildarmynd sína Donor Unknown. Í myndinni Town of Runners segir af eþíópíska bænum Bekoji, en þaðan hefur komið mikill fjöldi langhlaupara á heimsmælikvarða á undanförnum tuttugu árum. Hlauparar frá Bekoji hafa unnið til 8 gullverðlauna á Ólympíuleikum, 32 verðlauna á heimsmeistaramótum og sett 10 heimsmet á þessu tímabili. Sigurgangan hófst árið 1996, þegar Derartu Tulu vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum, fyrst afrískra kvenna. Fyrsti þjálfari hennar, Sentayehu Eshetu, var leikfimikennarinn í litla skólanum í Bekoji. Hann lét ekki þar staðar numið í þjálfuninni og á m.a. sinn hlut í árangri heimsmeistaranna Kenenisa Bekele, yngri bróður hans Tariku Bekele og hinnar frábæru Tirunesh Dibaba, auk systra hennar tveggja, Ejegayehu og Genzebe. Um 200 ungmenni æfa nú daglega undir hans stjórn.
Í myndinni er fylgst með tveimur unglingsstúlkum, Alemi og Havwii, sem hafa keppt í hlaupum heima í Bekoji en ætla sér að ná lengra, rétt eins og átrúnaðargoð þeirra hafa gert. Hlaup eru leið unga fólksins úr fátækt. Þar eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Aðstæður heima fyrir eru erfiðar, moldarbrautin sem þau æfa á fer undir vatn á regntímanum, mataræði er fábreytt og matur af skornum skammti, alnæmi er útbreitt og hefð er fyrir því að fólk gangi mjög ungt í hjónaband.
Kristín Ólafsdóttir segir mjög ánægjulegt að hafa tekið þátt í framleiðslu þessarar einstöku myndar. „Jerry Rothwell náði frábærum tökum á efniviði myndarinnar, hann sýnir okkur það umhverfi sem þessir ungu íþróttamenn alast upp í og nær að miðla vonum þeirra og þrá. Þá vakti frábær kvikmyndatakan mikla athygli gesta á forsýningu í London í síðustu viku. Við ætlum ekki að láta við það sitja að dreifa myndinni sem víðast heldur viljum við gjarnan styðja við það frábæra starf sem unnið er í Bekoji. Frekari uppbygging íþrótta- og skólastarfsins þar skilar sér í bættum hag íbúa bæjarins og héraðsins alls,“ segir Kristín.
Heimasíðu Town of Runners er að finna hér og þar er m.a. hægt að skoða sýnishorn úr myndinni.