Noomi Rapace, sem sló rækilega í gegn í hlutverki andhetjunnar Lisbeth Salander í þríleik Stiegs Larssons, hefur ekki minnsta áhuga á því að verða ein af stórstjörnunum í Hollywood.
Sænska leikkonan segir lífið í kvikmyndaborginni vera brjálæði líkast og kýs helst að koma fram í óháðum gæðamyndum, sem ekki eru sveipaðar dýrðarljóma.
Rapace ræðir kvikmyndadrauma sína í viðtali við franska tímaritið Grazia. „Ég hef engan áhuga á Hollywood,“ segir leikkonan. „Ég myndi aldrei vilja sogast inn í brjálæðið þar, mig dreymir ekki um að verða Hollywoodstjarna.
Það eina sem skiptir mig máli er að gera vandaðar kvikmyndir. Það heillar mig ekki að hafa her aðstoðarmanna eða fullkomið hjólhýsi á tökustað, bara fyrir mig.
Ég vel erfið hlutverk og vil leika karaktera sem eiga í innri baráttu. Mér finnst óbærilega leiðinleg tilhugsunin um að leika kynþokkafulla, fallega og góða konu. Það er ekki ég.“