Diljá Ámundadóttir fékk nóg af níu til fimm lífi í 101 og ákvað að selja íbúðina, segja upp vinnunni og fara í heimsreisu.
„Ég held að staða tungla hafi eitthvað haft með þessi umskipti að gera, það var víst ofurmáni helgina sem ákvarðanir voru teknar,“ segir Diljá Ámundadóttir sem gerði sér lítið fyrir, sagði upp vinnunni, seldi íbúðina sína og mun leggja upp í sex mánaða flakk um heiminn seinna í sumar. „Þessi ofurmánahelgi var mjög skrýtin hjá mér, tilfinningalífið var eins og þvottavél og mikil hreinsun í formi tára. Það var einhver kúvending í gangi. Góð vinkona mín kom í heimsókn og eins var ástatt fyrir henni og við grétum saman,“ segir Diljá og hlær að öllu táraflóðinu. „Við fórum yfir stöðuna í lífi okkar og komumst að því að við værum ekki sáttar í hraða og hringiðu okkar daglega lífs. Ég komst að því að mig langaði ekki lengur til að vera níu-til-fimm-manneskja í 101 Reykjavík.“
Diljá var semsagt tilbúin til að sleppa tökunum á örugga lífinu sem felst í því að hafa fasta vinnu, vera með reglulegar tekjur, eiga sitt eigið húsnæði og fleira í þeim dúr. „Ég tók þá ákvörðun að þykja vænt um þessa dýfu sem ég tók og leyfa náttúruöflum ofurmánans að ýta mér áfram. Ég hef alltaf verið með þykkan naflastreng við Ísland og litla fiskiþorpið 101 Reykjavík. En ég ákvað að klippa á strenginn og láta þann draum verða að veruleika að fara á flakk út í heim.“ Þremur dögum síðar seldist íbúðin hennar og tveimur dögum eftir söluna sagði Diljá upp vinnunni. „Ég var í mjög flottri vinnu en það er eitthvað í persónuleika mínum sem gerir það að verkum að ég get ekki setið við sama borðið allan daginn,“ segir Diljá sem verður hinn fyrsta júlí næstkomandi formlega atvinnulaus og húsnæðislaus. „Það er ekkert sem bindur mig hér heima, ég er barnlaus og á ekki maka. En ég á fullt af draumum um hvað mig langar til að upplifa. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að stökkva af stað. Vinkona mín sem átti með mér grátdaginn góða fer kannski með mér, en ef ekki, þá fer ég ein. Það hef ég aldrei þorað áður.“ Þær vinkonurnar eiga líka sameiginlegan draum um að læra fisflug (e: paragliding) og skráðu sig því strax á slíkt námskeið sem verður núna í júní.
Diljá leggur upp í heimsreisuna í ágúst og ætlar að byrja á því að fara í „road-trip“ frá austurströnd að vesturströnd Bandaríkjanna. „Planið er að fara suður til New Orleans, Memphis og Austin og reyna að detta inn í skrýtin krummaskuð og svo mun ég heimsækja fjölskyldu og vini í Kaliforníu. Síðan tekur við flakk um Mið-Ameríku, en mig hefur lengi dreymt um að koma til Gvatemala, Kostaríka, Jamaíku, Antígva og eyjasvæðisins þar. Mig langar til að læra köfun þar og stunda fisflugið, en ég mun líka slaka á í hengirúmi og kynnast fólki sem verður á vegi mínum. Frá Bandaríkjunum flýg ég sennilega til Nýja-Sjálands og vonandi fer ég þaðan til eyjanna í Kyrrahafinu, Fiji og Bora Bora. Þetta eru litlar eldfjallaeyjur með fáum íbúum sem lifa á fiskveiðum. Kannski get ég gengið úr skugga um það hvort eitthvað sé sameiginlegt í persónuleika okkar Íslendinga og fólksins sem þarna býr.“
Þaðan liggur svo leiðin til Japans, en Diljá á heimboð í Tókýó hjá íslenskri vinkonu sinni. „Hún hefur ferðast mikið ein um heiminn og er orðin fyrirmynd mín og hefur gefið mér mörg góð ráð fyrir ferðalagið. Ég hlakka til að ferðast um Japan því ég veit að þar er mikil náttúrufegurð,“ segir hún og bætir við að þegar hún kveðji Japan muni nóvembermánuður ganga í garð en þá stendur til að hitta bestu vinkonuna. „Við höfum haft fyrir reglu að fara saman í sól í skammdeginu í nóvember og ætlum að reyna að láta þá góðu reglu ekki falla niður, þótt vinkonan þurfi í þetta sinn að fara til Taílands til að hitta mig. Ef af því verður mun þessi hluti af ferðinni verða lúxus-sápukúla og við stefnum á að leyfa okkur að vera á flottu hóteli á fagurri eyju og fá kannski nudd daglega. En á Taílandi langar okkur líka til að stunda vatnasafarí, köfun og annað skemmtilegt. Síðan langar mig til að fara til Nepals þar sem ku vera áhugavert að stunda fisflugið og þar á eftir væri gaman að fara til Indónesíu og Balí. Planið er að enda svo ferðina á Indlandi og væri ég til í að komast í fjögurra daga brúðkaup og á frumsýningu á Bollywoodmynd,“ segir Diljá sem hefur verið að læra Bollywood-dansa undanfarin tvö ár. „Ég geri mér grein fyrir að í þessari ferð verð ég að hafa pláss fyrir hið óvænta og ég vil ekki vera bundin af ofurskipulagi. Ég reyni því að halda þessu gullna jafnvægi: Að vera skipulögð og hagsýn en líka kærulaus þegar við á og taka á móti því óvænta. Kannski verð ég við lok ferðar búin að gera eitthvað allt annað en planið er.“
Þegar Diljá sagði vini sínum Hugleiki Dagssyni frá því að brátt yrði hún atvinnulaus, heimilislaus og á leið í heimsreisu, þá sagði hann að þetta væri eins og byrjun á skvísubók og að hún yrði að skrifa hana. „Hann var strax kominn með titil bókarinnar: Diljá eða nei, finnur hún svarið? Það er aldrei að vita nema ég taki þessari áskorun. Mig langar að skrifa bók sem væri bara gefin út á netinu og ég gæti sett inn í hana myndbönd,“ segir Diljá sem las grein um daginn um þá staðreynd að fólk sér einna mest eftir því á dánarbeði að hafa ekki látið drauma sína rætast og að hafa eytt af miklum tíma í vinnu sem það var ekki glatt í. „Ég er nokkuð ánægð með að vera búin að krossa við þessi tvö atriði. Mér finnst ég vera að gera rétt og það er mjög góð tilfinning. Það er ólíkt mér að fá snöggt ógeð á Reykjavík og vinnubrjálæðinu í íslensku samfélagi. Ég hlakka til að kynnast þessari nýju Diljá í ferðalaginu,“ segir verðandi heimshornaflakkari sem ráðgerir að koma heim rétt fyrir jól. „Mér finnst frábært að vita hvorki hvað ég muni fara að vinna við þegar ég kem heim né hvar ég muni búa.“