J.R. Ewing lifir áhættusæknu lífi sem felur í sér að fara næstum því alltaf fram af brúninni, bæði í viðskiptum og í samskiptum sínum við aðra. Í fyrri seríum af Dallas var kvensemin svo mikil að undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði maðurinn átt að vera óvinnufær vegna stöðugra framhjáhalda og vesensins sem fylgdi ástarmálunum. Með kjaftinn á réttum stað náði hann að lokka hverja fegurðardrottninguna upp í rúm til sín þótt hann væri kannski ekkert sérstaklega mikið fyrir augað, ekki þannig séð.
Þess á milli skvetti hann í sig víni eins og um vatn væri að ræða og náði einhvern veginn alltaf að vera með pálmann í höndunum þrátt fyrir öldugang í eigin tilveru.
Nú er búið að framleiða nýja seríu af Dallas-þáttunum. Fyrsti þátturinn í nýju seríunni verður sýndur á Stöð 2 á sunnudaginn kemur en þættirnir voru frumsýndir í Bandaríkjunum í dag. Mikill spenningur er fyrir seríunni hjá gömlum Dallas-aðdáendum og verður forvitnilegt að sjá hvort J.R Ewing, Bobbi Ewing og Sue Ellen hafi nokkru gleymt. Auk þeirra eru nýir leikarar sem leika Christopher og John Ross, syni Ewing-bræðranna enda voru þeir litlir strákar þegar síðasti þátturinn var tekinn upp af upprunalegu seríunni.
Ónefndur aðili tók saman brot af bestu frösum J.R. Ewing sem eru margir hverjir ódauðlegir.