Leikkonuna Alison Arngrim þekkja Íslendingar, komnir yfir þrítugt, sem hina andstyggilegu Nellie Oleson, úr sjónvarpsþáttunum Húsið á sléttunni. Hún var dóttir kaupmannshjónanna og gerði Ingalls-systrunum oft lífið leitt.
Alison vinnur fyrir sér sem skemmtikraftur og leikkona og hefur skrifað nokkrar bækur. Alison gerir enn þann dag í dag út á Nellie enda líklega einn vinsælasti sjónvarpskarakter fyrr og síðar til að láta fara í taugarnar á sér. Hún vekur einnig athygli á samskiptasíðunni Twitter þar sem mikið fjör er í kringum hana. Þannig birtist í dag ljósmynd af henni þar sem hún bregður á leik og setur upp kunnugan svip frökenarinnar Nellie Oleson sem sjá má HÉR.
Leikkonan varð fimmtug í ár en Arngrim nafnið hennar er íslenskt. Faðir hennar, Thor Arngrim, var ættleiddur af íslenskri fjölskyldu sem bjó í Kanada, í kringum 1930. Nánar tiltekið bjuggu þau á stóru býli í Saskatchewa-héraðinu - „Arngrímarnir“ svokölluðu.
Æska Arngrim var þó dapurlegri en leit kannski út fyrir en árið 2004 sagði hún frá því í sjónvarpsþætti hjá Larry King að náinn fjölskyldumeðlimur hefði misnotað hana kynferðislega sem barn. Hún vildi ekki nefna nafn brotamanns en útilokaði þann möguleika strax að það væru foreldrar hennar. Brotin voru fyrnd þegar hún hugðist kæra. Síðan þá hefur Alison verið ötull talsmaður barna og komið víða fram og rætt reynslu sína.