Leikkonan úr The Birds, Tippi Hedren, segir Alfred Hitchcock hafa eyðilagt feril hennar þegar hún vildi ekki þýðast hann kynferðislega. Hann hafi verið illur og siðblindur einstaklingur. Hedren er 82 ára í dag.
Tippi Hedren var löngum í sérstöku eftirlæti hjá leikstjóranum Alfred Hitchcock. Hún lék aðalhlutverkið í The Birds en segir leikstjórann hafa áreitt hana kynferðislega allan tímann sem tökur á myndinni stóðu yfir. Hedren er 82 ára í dag og í framleiðslu er sjónvarpsmynd um samband hennar við leikstjórann.
BBC og HBO standa að framleiðslu myndarinnar sem ber yfirskriftina The Girl. Ýmislegt hefur verið dregið fram í dagsljósið við þá vinnu og Hedren hefur lýst Alfred Hitchcock sem sorglegri og illa innrættri manneskju. Það góða sé að þótt hann hafi eyðilagt feril hennar hafi hann sem betur fer ekki náð að eyðileggja líf hennar. Hedren segist hafa þurft að berjast til að losna undan samningi hjá leikstjóranum og misst hlutverk þess vegna.
„Maðurinn var snillingur en illur og siðblindur, næstum því hættulegur því hann gat haft svo mikil áhrif á fólk," hefur Daily Mail eftir leikkonunni.
Þegar Hedren lék í The Birds var hún 34 ára og nýtrúlofuð seinni manni sínum. Sienna Miller leikur Hedren í myndinni.