Unga Harry Potter-leikkonan Emma Watson er stödd hérlendis vegna kvikmyndarinnar Noah þar sem hún leikur meðal annars á móti Russell Crowe. Hún gistir á 101 hóteli sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur sem var sjálf í afgreiðslunni seinnipartinn í gær. mbl.is sagði frá því í gærkvöldi að Emma Watson hefði farið í bíó í gærkvöldi og ekki skilið neitt í Woody Allen-myndinni sem væri að hluta til á ítölsku með íslenskum texta.
Ungfrú Watson kom inn á 101 hótel rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi og fór lítið fyrir henni. Skjannahvítur Landrover Discovery með alveg dökkum afturrúðum stoppaði fyrir utan hótelið og stuttu síðar gekk Watson inn í fylgd ljóshærðrar konu á miðjum aldri. Báðar voru þær klæddar í útivistarföt líkt og allir ferðamenn sem heimsækja Reykjavíkurborg. Þrátt fyrir að bar hótelsins væri þéttsetinn þegar leikkonan kom í hús tóku fáir eftir henni.
Emma Watson hefur notið Reykjavíkur meðan á dvöl hennar stendur en hún borðaði meðal annars á Ban Thai ásamt vinum sínum eins og Smartland greindi frá í gær.