Spice Girls áttu stjörnuleik á lokaathöfn Ólympíuleikanna sem fram fór í Lundúnum á sunnudagskvöldið. Áhorfendur voru himinlifandi með hvað þessar fimm skvísur hefðu elst vel og hvað það hefði verið gaman að þeim. Mikið gekk á fyrir endurkomu hljómsveitarinnar sem hefur legið meira og minna í dvala síðasta áratuginn. Hljómsveitin var stofnuð 1994 og var í miklum blóma til 2001.
Þegar Spice Girls voru fyrst spurðar að því hvort þær væru til í að koma saman fyrir lokahófið sögðu allar já, nema Victoria Beckham. Hún sagðist alls ekki hafa tíma fyrir þetta vesen enda með ársgamla dóttur og væri að vinna við tískuhönnun sína. Heimildarmaður sagði í samtali við RadarOnline að hún hefði séð að sér þegar hún sá hvað það hefði litið illa út fyrir hana ef hún hefði slaufað gigginu.
Eftir giggið eru allir meðlimir hljómsveitarinnar dálítið spenntir fyrir tónleikaferðalagi, nema ein. Það kemur víst ekki á óvart að Victoria Beckham skuli ekki vera á þeim buxunum því hún hefur stofnað sitt eigið fatamerki og hyggur á stórsigra á því sviðinu. Hún er líka sú eina sem hefur komist í A-flokkinn í stjörnuheiminum meðan hinar eru ennþá í B-flokki. Geri Halliwell, Mel B, Mel C og Emma Bunton eru allar til í slaginn og segir heimildarmaður RadarOnline að þær ætli ekki að láta Victoriu Beckham stoppa sig.