„Braust Vala Matt inn hjá þér?“

Logi Bergmann Eiðsson.
Logi Bergmann Eiðsson. Friðrik Tryggvason

„Ég held að það hafi allir gaman af því að hrekkja,“ segir Logi Bergmann Eiðsson, fréttamaður og hrekkjalómur með meiru. Logi er þekktur fyrir óteljandi uppátæki og hefur nú sent frá sér bókina Handbók hrekkjalómsins þar sem hann fer til dæmis yfir ýmsa hrekki sem hann sjálfur hefur staðið fyrir og hrekki þekktra samborgara sinna. 

„Það er mikið atriði að menn geri greinarmun á því hvað er að hrekkja og stríða. Hrekkjalómur og hrekkjusvín er tvennt ólíkt. Að vera hrekkjalómur snýst um að vera fyndinn, skemmtilegur og sniðugur án þess að meiða og særa fólk. Það felst smá vináttuvottur í að hrekkja þá sem maður þekkir.“ Logi valdi tvo hrekki sem eru í sérstöku eftirlæti hjá honum og deilir hér með lesendum Smartlands.

1) Þegar ég vann á Morgunblaðinu háttaði svo til að starfsmannaaðstaðan var við hliðina á stimpilklukkunni. Við Morgunblaðið starfaði ungur og efnilegur prentari, Ívar Hauksson, sem þá hafði getið sér orð sem vaxtarræktarmaður og hafði reyndar á þessum tíma lent í eilitlum vandræðum með að hafa, af ástæðum ónefndum, meira af karlhormónum í líkama sínum en gengur og gerist. Það var því nokkurn veginn óskráð regla að láta hann sem mest í friði.

En við vorum gamlir kunningjar og einhvern mánudaginn tók ég mig til og stimplaði hann út! Svo stimplaði ég hann inn næst þegar ég átti leið framhjá. Og þennan háttinn hafði ég á alla vikuna. Inn og út allan daginn og get varla sagt að ég hafi vitað hvert ég var að fara með þessu. Prentarar fengu útborgað vikulega og svo kom að því að Ívar sótti kaupið sitt en brá þá í brún við að fá rúmlega sex þúsund kall í umslagið. Hann brást hinn versti við. „Af hverju fæ ég svona lítið?“ „Það þýðir ekkert að vera alltaf að skreppa allan daginn,“ svaraði starfsmannastjórinn. Það sem eftir lifði dags var ég á hlaupum.  

2) Illugi Gunnarsson og Brynhildur Einarsdóttir eru vinafólk okkar Svanhildar, eiginkonu minnar, til margra ára. Ennþá. Merkilegt í ljósi þess að við hrekktum þau frekar illa svo ekki sé meira sagt. Eitt sinn ætluðum við að heimsækja þau þar sem þau bjuggu á Fjólugötunni. Þau voru ekki heima en íbúðin var ólæst og skyndilega stóðum við í stofunni og litum hvort á annað. Og þá varð ekki aftur snúið:

Við tókum alla stofuna þeirra og snerum henni við. Við lögðum mikið upp úr því að ná fullkominni speglun, þannig að sófasettið, sem var vinstra megin, fór í hinn enda stofunnar. Það sama gerðist með sófaborðið, borðstofuborðið, nokkra stóla, sjónvarpið og allt sem var hreinlega ekki naglfast. Svo fórum við. Við hlógum að þessu langt fram eftir kvöldi en vorum eiginlega búin að gleyma þessu þegar síminn hringdi eftir miðnætti. Á línunni var Brynhildur og var frekar æst. Samtalið var nokkurn veginn svona: 

Brynhildur: „Vorið þið heima hjá okkur í kvöld?“

Logi: „Ha! Við!“ (fliss)

Brynhildur: „Já, þið.“

Logi: „Já, kannski smá.“ (enn meira fliss)

Brynhildur (hávær): „Þið eruð rugluð!“

Í ljós kom að Illugi var í útlöndum, en Binna ein heima og hafði fengið vægt taugaáfall þegar hún kom heim. Hún hringdi í bróður sinn og sagði að það hefði verið brotist inn hjá þeim.

„Var einhverju stolið?“

„Nei, en það er búið að breyta öllu hjá okkur!“

„Nú? Braust Vala Matt inn hjá þér?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda