Nýjasta lag tónlistarkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur heitir Mutual Core. Myndbandið við lagið var framleitt af Sagafilm og leikstýrt af virta bandaríska leikstjóranum Andrew Thomas Huang.
Myndbandið var frumsýnt á nútímalistasafninu í Los Angeles í gærkvöldi og verður sýnt á youtube-rás safnsins síðdegis í dag.
Myndbandið var tekið upp í sumar í stúdíói Sagafilm á Laugavegi en alls komu þrjátíu manns að gerð myndbandsins. Starfsliðið var allt íslenskt fyrir utan leikstjórann og aðstoðartökumanninn sem komu að utan. Meðal þeirra sem unnu við tónlistarmyndbandið voru Gus Ólafsson og Gústi Jak. Um framleiðslu sáu þeir Árni Björn Helgason og Kristinn Þórðarson hjá Sagafilm.
Í myndbandinu má sjá frábært samspil grafíkur og raunveruleika en Björk er grafin í sand í myndbandinu og leika eldfjöll og steinar stórt hlutverk í sviðsmyndinni.
Mutual Core er eitt af þrettán lögum á nýjustu plötu Bjarkar, bastards, sem kemur út 19. nóvember hjá One Little Indian. Á plötunni verða eingöngu endurhljóðblönduð lög af Biophilia-plötunni sem kom út í fyrra.