Smartland greindi frá því fyrr í dag að Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi 365 miðla, hefði stöðvað sýningar á þáttunum Lífsleikni Gillz í Sambíóunum. Sigmar Vilhjálmsson, sem rekur Stórveldið sem framleiðir Lífsleikni Gillz ásamt Jóhannesi Ásbjörnssyni og Huga Halldórssyni, segir að þetta sé alrangt. „Ingibjörg Pálmadóttir hefur ekkert með Lífsleikni Gillz að gera og Stórveldið á allan framleiðslurétt af þáttunum. Við ákváðum að fresta sýningum á þáttunum í bíó í síðustu viku þegar kom í ljós að málinu er ekki lokið,“ sagði Sigmar í samtali við Smartland. „Það er alls ekki tímabært að sýna þættina núna og verður ekki fyrr en þetta mál er búið,“ segir hann.