Bridget Jones var ein á nýársdag undir sæng, kærastalaus.
Þær sem náðu ekki að eignast jólakærasta geta enn miðað á gamlárskvöld. Það er að segja; það þarf ekkert að vera örvæntingarfullur og finna bara einhvern fyrir kvöldið - en ef aðstæður eru til er fullt af plúsum við að vera að hitta einhvern þessa dagana.
- Rómantískar aðstæður. Það er fátt rómantískara en áramótin. Hér gefst gott tækifæri til að eiga ákaflega rómantíska stund undir flugeldaregni og kyssast jafnvel í fyrsta sinn. Veit á gott.
- Myrkur. Það eru flestir sætari í myrkri. Sléttari húð og minna ber á helstu lýtum. Sumir segjast aldrei hitta kærastann fyrstu mánuðina á stað þar sem flóðlýsing er fyrir hendi því þá verður allt það ljóta svo áberandi.
- Það er kalt. Kuldinn hreinlega býður upp á að deila kápu, lauma sér undir þykkan frakka og vefja hvort annað örmum. Svo ekki sé minnst á hálku - þar sem það er ekkert annað í stöðunni en að leiðast.
- Partí. Á fyrstu dögum stefnumóta er mjög gott að geta brotið upp tveggja manna samveru með því að hitta stóran hóp vina og kunningja. Vinir þínir geta sagt honum allt um hversu frábær þú ert - fylgstu samt með þeim sem ætla að taka hann á trúnó um líf þitt og stoppaðu það. En þetta er góð skemmtun og ef þú átt skemmtilega vini er þetta neglt.
- Ef þú spilar á hljóðfæri er um að gera að reyna að komast í matarboð (láttu vinkonu þína sem á eitt stykki píanó bjóða ykkur) og sýna síðasta trompið; spila nú árið er liðið með brag. Ekki reyna þetta með þverflautu.