Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholti, er hugsi yfir ummælum Jóns Gnarr borgarstjóra í Reykjavík um að hann hafi orðið fyrir einelti á íbúafundi í gærkvöldi.
„Mér fannst ég knúinn að segja frá þessu, ekki bara mín vegna heldur allra þeirra sem þurfa að lifa við niðurlægingu, háð, lítilsvirðingu, ógnanir og ofbeldi, í skólanum, á heimilinu, í vinnunni, internetinu eða á götum úti. Af hverju þegjum við svo gjarnan yfir svona? Ég varð fyrir einelti og ofbeldi í æsku. Það tók mig 30 ár að safna í mig kjarki til að segja frá því. Ég þarf ekki þann tíma lengur. Baráttan gegn ofbeldi og einelti er ekki eftir 30 ár. Hún er núna.
Ég get tekið undir hvert orð sem Jón Gnarr ritar um veruleika eineltis í samfélaginu. Það einkennist af niðurlægingu, háði, lítilsvirðingu, ógnunum og ofbeldi og á sér jafnt stað meðal fullorðinna og barna. Og það er gott að það sé talað um það. En ég er líka hugsi við þennan lestur, segir Sigríður á bloggsíðu sinni og heldur áfram:
„Ég var ekki á fundinum í Grafarvogi og get því ekki lagt mat á það sem þar fór fram. Ég hef hlustað á viðtöl við fólk sem var þar, sjá hér. Þar má m.a. heyra það viðhorf að fólki hafi orðið heitt í hamsi yfir því að borgarstjóri hafi vikist undir að svara þangað til í lok fundar. Annar þátttakandi á fundinum sagði í athugasemdum við færslu borgarstjóra að á fundinn hafi mætt „harðskeytt götugengi miðaldra karla sem ætlaði greinilega að taka yfir fundinn, en fékk ekki stuðning annarra fundarmanna”. Það er því auðheyrt að upplifun fólks af þessum fundi hefur verið mjög mismunandi.“
Sigríður vitnar í síðu Regnbogabarna og segir að það sé varla hægt að flokka átökin á fundinum með borgarstjóra sem einelti.
„Það sem vefst fyrir mér er að ég er ekki viss um að það sé góð hugmynd að tala um slík átök sem einelti. Á síðu Regnbogabarna er að finna góðar skilgreiningar á einelti, sjá hér. Þar er vitnað í ýmsa fræðimenn sem hafa rannsakað einelti sérstaklega. Þar segir:
Einelti er skilgreint sem endurtekin eða viðstöðulaust áreiti/ valdbeiting, munnleg, sálfræðileg eða líkamleg, framkvæmdar af einstaklingi eða hóp einstaklinga sem beita sér gegn annarri manneskju eða hóp einstaklinga gegn þeirra vilja.
Dan Olweus skilgreinir einelti þannig að það sé einstaklingur sem lendir reglulega og yfir ákveðið tímabil í neikvæðu áreiti af hendi eins eða fleiri. Roland telur einelti vera langa og kerfisbundna notkun ofbeldis, andlegs eða líkamlegs, gagnvart einstaklingi sem ekki getur varið sig í aðstæðunum. Bjorkquist og fleiri segja einelti vera ákveðna tegund ýgi eða árásargirni sem sé í raun félagsleg.
Pikas heldur því fram að nauðsynlegt viðmið til að meta einelti sé að það sé neikvæð hegðun frá tveimur eða fleiri einstaklingum gagnvart einum einstaklingi eða hópi.
Besag segir að í Bretlandi sé það talið einelti þegar einn einstaklingur ræðst á einhvern hátt gegn einum einstaklingi, hópi eða hópur ræðst gegn hópi eða hópur gegn einstaklingi.
Eitt helsta einkenni eineltis er að þar er ráðist gegn einstaklingi eða hópi og hann gerður valdlaus og ósýnilegur. En nú er Jón Gnarr hvorki valdlaus né ósýnilegur. Hann er valdamesti maður í Reykjavík og heldur gríðarmikilvægum þráðum í hendi sér, þráðum sem varða líf, heill og velferð fjölskyldna og einstaklinga í Reykjavík. Honum var treyst fyrir þessum stjórnartaumum af fjölmörgum Reykjavíkum og af skoðanakönnunum að dæma er hann vinsæll stjórnmálamaður. Hann er áberandi maður og hefur góðan aðgang að öllum fjölmiðlum fyrir boðskap sinn. Hann hefur skrifað minningar sínar og síðasta bók, sem fjallar einmitt um einelti á hendur honum var ein af metsölubókunum fyrir síðustu jól.“
Sigríður segir að Jón Gnarr sé hvorki valdalaus né mállaus.
„Jón Gnarr er maður sem hefur upplifað einelti og ofbeldi sem barn, unglingur og eflaust fullorðinn maður líka. Hann hefur upplifað það hlutskipti að ekki sé tekið mark á neinu sem viðkomandi segir, hann sé niðurlægður og gerður hlægilegur án þess að viðkomandi geti rönd við reist. En núna er hann hvorki valdlaus né mállaus. Hann kemur sem kjörinn handhafi valds inn á íbúafundi að tala við umbjóðendur sína og þar sem fólk lýsir skoðunum sínum. Margar þessara skoðana eru mjög ólíkar þeim áherslum sem borgarstjóri vill standa fyrir og sumar settar fram í mikilli reiði. Vald þessa fólks er málfrelsi á slíkum fundi og kosningaseðill á fjögurra ára fresti og mörg af þeim telja sitt eina útspil vera það að berja með hvössum málflutningi á sitjandi valdhöfum þegar þau komast í tæri við þau.
Þess vegna er ég mjög sammála Jóni Gnarr þegar hann talar um mikilvægi þess að tala um einelti sem börn og fullorðnir verða fyrir. En er það einelti þegar almenningur skammar borgarstjórann sinn? Eflaust hafa hvöss og ljót orð verið látin falla. Vafalaust er hægt að bæta mikið umræðuhefð Íslendinga, t.d. á íbúafundum og það er sístætt verkefni að ganga fram af festu og virðingu í pólitík og umræðum um hana. En ég held að þegar valdmiklir menn tala um einelti á hendur sér séu þeir að taka yfir orðræðu hinna valdlausu.
Og það er ekki gott.“