Tónlistarmaðurinn Pálmi Gunnarsson á 18 ára edrúafmæli í dag. Hann segir að líf sitt hafi farið úr því að vera helvíti yfir í að vera yndislegt . „Ég held upp á edrúafmælið með því að skoða stöðuna og njóta þess að vera til,“ segir Pálmi sem var algerlega búinn á því þegar hann fór inn á Vog 8. Mars 1995. „Það er enginn í toppstandi sem fer inn á Vog. Þegar þarna var komið við sögu hafði ég enga stjórn á lífi mínu. Ég notaði allt sem að kjafti kom og var búinn að vera lengi í neyslu,“ segir hann.
Pálmi hefur átt farsælan feril sem tónlistarmaður og þegar hann er spurður að því hvernig hann hafi farið að því að vinna í þessu ástandi segist hann að oft hafi verið tæpt á því. „Ég hef stundum grínast með það að ef ég ætti að skrifa ævisöguna mína þá yrði ég að sleppa tveimur áratugum. En að öllu gamni slepptu þá tel ég mig hundheppinn að hafa sloppið lifandi, uppgjöfin kom á réttum tíma, ég hefði ekki þolað mörg ár í viðbót. Ég var staddur á þeim tímapunkti árið 1995.“
Þegar Pálmi er spurður að því hvað hann hafi verið lengi að jafna sig eftir meðferðina 1995 segir hann að það hafi tekið tvö til þrjú ár. „Ég var búinn að vera það lengi í áfengis-og eiturlyfjaneyslu. Hinsvegar var það æðislegt tilfinning að finna að maður var kominn á langþráðan stað. Að fara í gegnum taugatitring og hristing í nokkra mánuði var ekki mikill fórnarkostnaður fyrir nýtt lif.“