„Fyrir nokkrum árum síðan fór ég í útvarpsviðtal og á fundi því til undirbúnings spurði fjölmiðlakonan sem ætlaði að taka viðtalið hvort ég ætti systkini. Ég svaraði því játandi, að ég ætti tvo bræður. „Eru þeir þá eldri en þú?” spurði hún og um leið og ég svaraði því neitandi, að ég væri elst, hváði hún og sagði; „Hvernig gátu foreldrar þínir hugsað sér að eignast fleiri börn eftir að þú fæddist?” Ég verð ekki oft kjaftstopp og það þarf, nú til dags, talsvert mikið til þess að særa mig með fötlunarfordómum því þeir eru stór partur af lífi mínu. Ég hef þurft að læra að svara fyrir mig, hunsa þá og fyrst og fremst ekki láta þá niðurlægja mig. Yfirleitt tekst það nokkuð vel en það er þó sumt, eins og þessi spurning, sem læsir klónum í huga manns, smýgur inn í vitundina, hreiðrar um sig þar og veldur sjálfsmyndinni skaða. Mér fannst eins og ég hefði verið kýld í magann og þó að skynsemin segði mér að leyfa þessari konu ekki að hafa áhrif á hugsanir mínar missti ég stjórn á þeim. Horfði niður. Svaraði ekki. Skipti vandræðaleg um umræðuefni eins og ég hefði gert eitthvað rangt. Með því að vera til,“ segir Freyja Haraldsdóttir í bloggi dagsins.
Freyja segir að með notendastýrði persónulegri aðstoð geti hún lifað betra lífi.
„Verandi með notendastýrða persónulega aðstoð og geta þar með stjórnað mínu lífi og gert það sem mér sýnist hefur dregið verulega úr fatlandi áhrifum samfélagsins. Ég gleymi því heilu dagana að ég sé fötluð og er einungis minnt á það þegar hús gera ekki ráð fyrir mér og ég þarf frá að hverfa (sem er reyndar frekar oft) og svo þegar fötlunarfordómarnir láta á sér kræla. Það er jafnframt mjög algengt og hefur mismikil áhrif á líðan mína. Sumt er þó einfaldlega þannig, eins og spurningin hér fyrir ofan, að það slær mig út af laginu. Sjokkerar mig. Kýlir mig í magann. Fatlar mig,“ segir hún.
HÉR er hægt að lesa bloggfærsluna í heild sinni.