Rúnar Freyr Gíslason leikari mælir með því að fólk haldi uppi heiðri Hemma Gunn, sem lést í vikunni, með því hafa sérstakt Hemma Gunn-þema í allavega viku. En hvers vegna vill Rúnar Freyr að við tökum Hemma Gunn okkur til fyrirmyndar?
„Vegna þess að það skortir oft léttleika í okkur. Við flækjum hlutina. Stundum eigum við bara að vera hress og ekki með neitt stress,“ segir Rúnar Freyr og talar um að þetta sé góð leið til að minnast Hemma Gunn.
Þekktir þú hann vel?
„Ég þekkti Hemma ágætlega. Ég fór nokkrum sinnum í viðtal til hans og það var alltaf eins og að hitta besta vin sinn. Alltaf þegar hann sendi mér skilaboð skrifaði hann undir: Hemmi frændi.“
Hafði Hemmi áhirf á líf þitt?
„Hemmi hafði áhrif á alla sem hann hittu. Maður varð alltaf ríkari á eftir.“
Hvers vegna eigum við að taka hann okkur til fyrirmyndar? „Af því að hann vildi lifa í gleði og ljósi en ekki... þið vitið.“
Topp 5 listi yfir hluti til að gera í Hemmaviku:
1. Segja alltaf já, aldrei nei. Allar hugmyndir eru góðar, bara misgóðar. Engar lélegar.
2. Svara alltaf í símann með laginu: „I got sunshine...“ eða hressu lagi að eigin vali. Alltaf. Mjög mikilvægt.
3. Leika Dengsa reglulega yfir daginn, mjög ýkt. Ef einhver segir eitthvað sem þú ert sammála þá segirðu alltaf: „Njáááááá, það er svo mikið svoleiðis.“
4. Ef einhver er pirraður í vinnunni segir maður: „Hey, vantar ekki smá Hemma í kallinn“ og blikka viðkomandi.
5. Hlæja of mikið af öllu og segja öllum hvað þeir séu yndislegir og æðislegir. Taka að minnsta kosti eitt hláturskast á dag.