Óttar Proppé flutti kveðjuræðu sína í Borgarstjórn Reykjavíkur í dag en hann og Hanna Birna Kristjánsdóttir sinna nú störfum fyrir Alþingi. Karl Sigurðsson flokksbróðir Óttars úr Besta flokknum segist eiga eftir að sakna hans.
„Ég á mest eftir að sakna þægilegrar nærverunnar, yfirvegunarinnar í umræðum og gagnrýnu hugsunarinnar. Svo er hann alltaf svo hlýr og indæll. Borgarstjórnin verður ekki söm, en vonandi mun andi Óttars svífa yfir Vonarstrætið,“ sagði Karl í samtali við Smartland.
Spurður að því hvernig borgarstjórn mundi kveðja Hönnu Birnu og Óttar sagði Karl að kveðjuhóf væri að hefjast.
„Öll borgarstjórn mun núna hafa smá kveðjustund fyrir Óttar og Hönnu Birnu, en svo gerum við í besta eða meirihlutanum ábyggilega eitthvað skemmtilegt saman fljótlega. Allavega er engin ástæða til að sleppa alveg af honum hendinni strax,“ sagði Karl.