Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík segist myndi aðallega standa kyrr ef hann tíndi upp hvern einasta sígarettustubb sem yrði á vegi hans. Sjálfur hætti hann að reykja 2010.
„Algengasta tegund af rusli sem ég tíni upp á göngum mínum um borgina. Ef ég stoppaði til að tína upp sígarettustubba þá stæði ég aðallega kyrr. Er reykingafólk almennt meiri sóðar en reyklaust fólk?“ spyr Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík á Facebook-síðu sinni við mynd af fjórum tómum sígarettupökkum.
Sjálfur hætti Jón að reykja 26. ágúst 2010 og þegar hann var búinn að vera hættur í fimm daga sagði hann þetta á Facebook-síðu sinni:
„Fimmti dagur í helvíti. Nenni ekki að barma mér meira yfir því hér. Man varla einusinni hvað ég var að gera í dag. Búinn að vera ótrúlega heimskur og leiðinlegur, röflandi um eitthvað sem skiptir ekki máli. Einbeitingarlaus og pirraður."
Það var töluvert átak fyrir borgarstjórann að hætta að reykja enda hafði hann verið með sígarettu í munninum frá 13 ára aldri. Til þess að hætta að reykja sótti hann námskeið ásamt félögum sínum í Besta flokknum þeim Einari Erni Benediktssyni, Birni Blöndal, Karli Sigurðssyni, Páli Hjaltasyni og Óttari Proppé.