Þyngdist og léttist á víxl

Þorsteinn Bachmann fer með aðalhlutverkið í Vonarstræti sem frumsýnd verður …
Þorsteinn Bachmann fer með aðalhlutverkið í Vonarstræti sem frumsýnd verður í kvöld. Ljósmynd/Brynjar Snær

Þorsteinn Bachmann leikari fer með eitt af aðalhlutverkunum í Vonarstræti sem frumsýnd verður í kvöld. Í kvikmyndinni fer hann með hlutverk Móra sem er drykkfeldur rithöfundur og bóhem. Hann fær ekki frið fyrir óbærilegum minningum nema í botni flöskunnar. Ég heyrði í Þorsteini og spurði hann hvort hann hefði gert eitthvað sérstakt í tilefni dagsins.

„Ég fór á söguslóðir myndarinnar í morgun, gekk Vonarstræti og settist svo niður á bekk við Reykjavíkurtjörn og hugleiddi það ferli sem þessi mynd hefur verið síðustu ár fyrir mig og mína. Ég er ákaflega þakklátur fyrir að hafa fengið að fara í þetta ferðalag með Móra vini mínum, Baldvini leikstjóra og öllum hinum. Svo fór ég ræktina, sund og gufu. Það tilheyrir ávallt frumsýningardegi og hefur gert alla tíð. Það er á vissan hátt auðveldar að frumsýna í bíói en í leikhúsi því ég get engu um breytt varðandi útkomu myndarinnar. Nú er bara að mæta og sjá hver viðbrögð áhorfenda verða,“ segir hann.

Hvernig undirbjóstu þig fyrir hlutverkið?

„Ég fékk hlutverkið nánast 2 árum áður en tökur hófust. Við Baldvin áttum reglulega fundi og ég fékk að vera með í þróun handrits að einhverju leyti. Ég skoðaði skáld og útigangsmenn mikið á þessum tíma, bæði lífs og liðinna. Ég bjó mér til lagalista með lögum sem mér fannst tilheyra hugarheimi Móra og var svo heppinn að fá frumdrög að tónlist Ólafs Arndals inn á þann lista. Ég hlusta mikið á tónlist þegar ég er að skapa hlutverk og þetta fylgdi mér allt tökutímabilið. Síðan var þetta auðvitað bara botnlaus sálgreining og tilraunir og æfingar með leiktækni sem hæfðu hlutverkinu. Ég þurfti að leika drykkjumanninn á tveimur tímabilum og reyndi því að vera í  góðu formi líkamlega til að geta rokkað fram og til baka í þyngd, styrk o.þ.h. Annars á Kristín Júlla smikan í Vonarstræti mestan heiðurinn að útliti mínu í myndinni,“ segir hann.

Hvernig fórstu að því að léttast og þyngjast til skiptis? „Það er ekkert mál að þyngjast en ég lærði að skera mig niður á 12-24 tímum með því að tala við Halla Hansen og strákana í World Class. Uppskriftin er atvinnuleyndarmál,“ segir hann og hlær.

Hvernig þá? „Kaleorid heita töflurnar. Þær fást í apótekum og eru ekki lyfseðilskyldar en þær halda vatni í vöðvunum. Á þessum tíma drekur maður ekki dropa af vatni né öðrum vökva. Það fara svona 3-6 kíló með þessu. Giftingarhringurinn minn rann af í hvert skipti sem ég gerði þetta.“

Þorsteinn lagði mikið á sig til að setja sig í spor drykkjumannsins og gera hann trúverðugan.

„Ég reyndi að sjá og skynja heiminn með augum skáldsins. Ég gaf mér að Móri væri brotinn maður með þungann harm í brjósti sem þó reynir eftir fremsta megni að halda sér á floti í lífinu. Hann er á vissan hátt fjarrænn áhorfandi að lífinu. Ég ímyndaði mér að veröld slíks manns væri fljótandi, eilítið gruggug en á köflum býsna skondin líka. Móri fótar sig áfram á þunnum ís tilgerðarlegrar tilveru í þjóðfélagi þykjustunnar en undir niðri býr helblár harmurinn og hyldýpi minninganna. Maðurinn er jú skáld.“

Þorsteinn er viss um að Vonarstræti eigi eftir að hreyfa við fólki. „Ég held að þessi mynd eigi eftir að hreyfa við fólki. Þarna birtist íslenskur veruleiki liðinna ára í mörgum og ólíkum myndum. Handritið lofaði strax mjög góðu og ef maður hefur lært eitthvað á langri vegferð í því starfi sem ég stunda þá er það að útkoman verður sjaldan betri en uppskriftin.  Hvað sjálfan mig varðar þá veit ég fyrir víst að ég lagði alla mína lífs-  og sálarkrafta í þetta. Meira getur maður ekki gert. Ég er spenntur að sjá viðbrögðin.“

Og í hverju ætlar þú að vera í kvöld?

„Það er einfalt: Svartur smóking, hvít skyrta og sennilega slaufa. Svartir skór.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda