María Gunnarsdóttir, sem er 64 ára, var á leið til augnlæknis í Kringlunni á þriðjudaginn síðasta þegar hún sér konu leggja hvítum Victoriu Beckham Range Rover á stæðinu fyrir utan Kringluna. Þegar hún sér að konan á hvíta Range Rovernum tekur tvö stæði skrúfar hún niður rúðuna og biður hana um að leggja betur, svo hún sjálf geti lagt við hliðina á henni. Konan á hvíta Range Rovernum var nú ekki á því.
„Ég skrúfa niður rúðuna og bið konuna um að laga bílinn og þá sagði hún: „Það var keyrt utan í bílinn minn um daginn og síðan þá legg ég alltaf í tvö stæði“. Það var því ekkert annað í boði en að finna sér annað stæði þarna á bílastæðinu,“ segir María.
Hún segist almennt ekki verða vör við að fólk sé ókurteist en þetta kom henni svo á óvart að hún ákvað að smella mynd af bíl konunnar.
Range Rover Evogue þykir hinn mesti skvísubíll og gengur stundum undir nafninu Victoriu Becham Range Rover. Hún hannaði bílinn að innan og þykir hann ákaflega skvísulegur. Það er hinsvegar ekkert skvísulegt við það að taka stæði af 64 ára gamalli konu sem er á leið til augnlæknis.