Fjölmiðlakonan Sigríður Lund Hermannsdóttir, eða Sigga Lund eins flestir þekkja hana, hefur hafið störf hjá Austurfrétt. Flestir þekkja rödd hennar úr útvarpinu en síðustu ár hefur hún einnig haldið úti lífsstílsvefnum Siggalund.is. En hvers vegna er Sigga Lund farin að vinna á Austurlandi?
„Þetta kom til af því ég var að flytja með kærastanum, Aðalsteini Sigurðssyni, í Jökuldalinn hér fyrir austan. Við búum á bænum Vaðbrekku sem er sveitabær og er 90 km fyrir utan Egilsstaði. Við skötuhjúin erum því orðin kindabændur og erum við með 300 kindur. Svona er lífið óútreiknanlegt,“ segir hún og hlær.
„Svo var það einn daginn að ég sá auglýsingu frá Austurfrétt þar sem þeir voru að óska eftir starfskrafti. Ég hringdi og kannaði málið, leist vel á og var að byrja í nýju vinnunni núna í ágúst. Það verður bara gaman að takast á við þetta meðfram búskapnum, enda hverfur fjölmiðlabakterían ekki svo glatt. Mitt fyrsta forsíðuviðtal verður svo í Austurglugganum, sem Austurfrétt gefur út, á föstudaginn,“ segir hún.