Svava Johansen prýðir forsíðu MAN í október mánuði og segir í einlægu viðtali frá ástinni, lífinu og hvernig hún hafi tekið mataræðið föstum tökum en hún segist þannig m.a. halda einkennum breytingaskeiðsins í skefjum. Svava sem fagnaði nýverið fimmtugsafmæli sínu lítur stórglæsilega út á forsíðunni sem og á myndum inni í blaðinu eins og sjá má en hún segist hafa tekið mataræðið í gegn fyrir stórafmælið, rétt eins og hún gerði þegar hún stóð á fertugu.
„Ég ákvað að létta mig og taka mig aðeins í gegn og fór í eins konar hreinsunarkúr. Ég hafði oft reynt þetta á síðastliðnum fjórum til fimm árum en ekki verið nægilega ákveðin, en þegar tímapressan var komin á mig gekk þetta eins og í sögu,“ segir Svava sem finnur mikinn mun á líðan sinni. Hún mælir með því að konur sem eru að fara í gegnum breytingaskeiðið minnki sykurneyslu og stundi líkamsrækt og fari til dæmis í daglega göngu.
„Ég finn að ef ég fæ mér súkkulaði rýkur upp vanlíðan stuttu síðar. Eftir að ég tók það að mestu út líður mér svo mikið betur. Ef þetta er rétt kenning hjá mér – þá er breytingaskeiðið ekkert mál,“ segir Svava í viðtalinu í MAN en slær þó varnagla með tölunum 7-9-13.