„Þegar ég bar þriðja barn mitt undir belti haustið 2010 kom móðir mín með nokkrar bækur handa mér úr bókasafninu. Ein þeirra hét Ellefu líf og taldi móðir mín hana vekja áhuga minn þar sem fjallað var um föðurfjölskyldu mína, sögu Brynhildar Georgíu Björnsson, eða Hildí eins og hún var kölluð innan fjölskyldunnar. Bókin greip mig samstundis og ég las hana á einni kvöldstund. Hún var kannski ekki stórkostlega vel rituð en ég varð uppnumin af ævintýralegu lífi konu sem ég hafði aðeins hitt lauslega sem barn og vissi svona lítið um. Sérstakt lífshlaup flottrar konu. Við Þórður kærastinn minn ákváðum að skíra litlu dóttur okkar Ásu Georgíu sem fæddist vorinu síðar þessu seinna nafni sínu til að heiðra þessar konur. Langömmu Georgíu sem var dönsk og Brynhildi Georgíu sonardóttur hennar sem virtist vera stórbrotinn og sterkur karakter,“ segir Anna Margrét Björnsson kynningarfulltrúi og blaðamaður í DV í dag. Skömmu síðar frétti Anna Margrét af því að Hallgrímur Helgason rithöfundur væri að skrifa skáldsögu byggða á fjölskyldu sinnar.
„Ég held að margir viti að Guðrún Jónsdóttir, frænka mín, dóttir Brynhildar Georgíu, hafi ritað greinar eftir útkomu bókar Hallgríms þar sem hún lýsir þeirra sálarklemmu sem hún varð fyrir þegar hún fékk bók Hallgríms í hendurnar. Bókin, sem hann kallar skáldverk, og ég hef auðvitað lesið, er byggð á köflum svo mikið á ævisögu Brynhildar Georgíu frænku minnar að það jaðrar við ritstuld, en að sama skapi er hún skreytt með gjörsamlegum skáldskap sem einkennist af ofbeldi, klámi, nauðgunum og svo rúsínunni í pylsuendanum, að forsetasonurinn, nasistinn, hafi nauðgað fimmtán ára dóttur sinni í Berlín í stríðslok.
Nasistinn, faðir „Herru“ ( eða Hildíar) sem Hallgrímur byggir á, afabróðir minn, hét Björn. Hann gerði þau mistök að gangast inn í hugsunarhátt nasismans á þessum tíma líkt og meginþorri þýsku þjóðarinnar og allmargir íslendingar líka. En í bók Hallgríms heitir hann ekki Björn. Hann heitir Hans Henrik, en Hans Henrik var afi minn, bróðir Björns. Af hverju þessi nafnaruglingur? Af hverju að ganga ekki alla leið og breyta þá öllum nöfnunum í bókinni í stað þess að ganga hálfa leið og rugla alla í ríminu? Eða breyta engum nöfnum? Af hverju heitir Brynhildur Georgía Herbjörg María í bókinni en önnur nöfn halda sér eða ruglað saman? Af hverju er verið að afskræma fjölskyldusögu mína? Hallgrímur Helgason tekur fram í sífellu að þetta sé skáldsaga og allt sé leyfilegt í skáldskap. Ég er farin að halda að þessi rök hans séu aðeins til þess að forðast málsókn vegna meiðyrðamáls,“ segir Anna Margrét.
Hún segist í gegnum tíðina hafa lesið margar skáldsögur sem byggðar eru á ævi fólks á árum áður og veit að margar persónur íslenskra og erlendra bókmennta eigi sér fyrirmyndir.
„Skáld hafa jú leyfi til að gera hvað sem þeim sýnist. Það stendur fremst í bók Hallgríms að þetta sé skáldsaga. Nú er skáldsagan orðin að leikverki á fjölum Þjóðleikhússins. En munu leikhúsgestir og lesendur Konunnar við 1000 gráður halda það að svona hafi hlutirnir gerst í raun og veru? Ég vona svo sannarlega ekki og þess vegna get ég ekki lengur orða bundist.
Þeir sem taka þessari gagnrýni á slíkum ærumeiðandi ruglingi milli raunveruleika og skáldskapar sem einhverju snobbi hjá fjölskyldu sem heitir eftirnafni fyrsta forseta Íslands þá langar mig að spyrja, hvernig myndi ykkur líða ef minning móður ykkar, og fjölskyldu væri afskræmd með þessum hætti? Það kemur því ekkert við hvaða eftirnafn fjölskyldan ber eða hvaðan hún kemur. Jú, vissulega heiti ég Björnsson en það hefur lítil áhrif haft á mitt líf nema að fólki finnst stundum ruglingslegt að ég beri karlmannseftirnafn. Ég gef skít í snobb og get með sanni sagt að fjölskylda okkar á ekki slíkt til, heldur einkennist hún af hógværð og húmor. Er það nokkuð annað en meiðyrði sem á sér stað þegar maður er vændur um að nauðga barnungri dóttur? Ljóðræn táknmynd stríðsins í huga skáldsins eða bara til að gera skáldsöguna meira „djúsí”? Líf Brynhildar Georgíu var alveg nógu „djúsí” án þess að það þurfi að bæta slíku inn í hana til að gera hana meira spennandi eða söluvænni.“