Júlía Ólafsdóttir, yngri dóttir Sollu Eiríks, stökk út úr flugvél á Havaí í vikunni og segir það algerlega ólýsanlegt. Síðustu mánuði hefur Júlía ferðast um heiminn þveran og endilangan með Ingu Björk Haraldsdóttur vinkonu sinni.
„Þetta var nokkuð sem ég bjóst við að ég myndi aldrei gera, er svo hrikaleg lofthrædd. En Inga vinkona mín sannfærði mig þegar við vorum heima um að þetta væri eitthvað sem við yrðum að gera í reisunni,“ segir Júlía og bætir því við að þetta hafi gerst mjög hratt.
„Þetta var ótrúlegt spennufall í byrjun, eða við það að hoppa út úr vélinni. En maður finnur samt bara rétt fyrir fallinu fyrstu sekúndurnar. Fékk samt alveg í magann þegar ég fattaði að við hefðum þurft að nota varafallhlífina og ég sá rifnu fallhlífina svífa fyrir ofan mig. En útsýnið var ótrúlegt.“
Þrátt fyrir þetta segir Júlía að hún myndi alltaf gera þetta aftur. „Mig langaði strax aftur eftir að við vorum lent.“
Eins og fyrr segir er Júlía í heimsreisu. Heimsreisan byrjaði í Noregi og svo til Dubai og þaðan koll af kolli.
„Við erum tvær að ferðast saman í „heimsreisu“. Við förum á tíu áfangastaði á næstum fjórum mánuðum. Erum núna staddar á eyjunni Kauai, Hawaii á næstseinasta áfangastað ferðarinnar. Nú erum við hjá hjá David Wolfe (hráfæðismeistara) á búgarðinum hans á Havaí. Við munum hjálpa honum í garðinum þar sem hann ræktar sitt eigið súkkulaði frá grunni og ótrúlegustu ávexti og grænmeti,“ segir Júlía. Þær stöllur eru búnar að vera í þrjá mánuði á ferðalaginu og eiga eftir að vera í mánuð í viðbót.
Eftir Dubai fóru Júlía og Inga í sautján daga ferð í gegnum Indland og Nepal.
„Við vorum fimm vikur í Taílandi, þar sem við lærðum að kafa, æfðum muay thai, fórum á Full Moon og fleira skemmtilegt. Vorum í nokkrar daga í Kuala Lumpur í Malasíu, fórum upp austurströnd Ástralíu og lærðum meðal annars að surfa. Eftir þrjár vikur í Ástralíu flugum við til Fiji í vikuslökun. Erum núna á Havaí og endum í LA þar sem við ætlum á Coachella og Longevity. Erum búnar að vera ótrúlega heppnar í ferðinni og fá að gista hjá vinafólki á ýmsum stöðum í heiminum. Það gerir þetta ennþá skemmtilegra því upplifunin er öðruvísi þegar þú ert með „local“ einstaklingum,“ segir hún.
Borðar þú bara grænmeti eins og mamma?
„Ég hef oft verið spurð að þessu. Ég ólst upp á grænmetisfæði og var alveg „vegan“ fyrstu árin mín í æsku. Sem barn var grænn smoothie uppáhaldsmaturinn og kallaði ég hann „orkusúpu“. Ég fór með mömmu til Púertó Ríkó þegar ég var fjögurra ára á hráfæðis-center þar sem ég lærði á hráfæði. Við mamma bjuggum svo lengi bara tvær saman. Eldhúsinu okkar var breytt í gróðurhús og var það allt öðruvísi en hjá fólki í kringum mig. Tólf ára smakkaði ég fyrst kjúkling. Í dag borða ég grænmeti í meirihluta en oft kjúkling eða fisk með.“