Ég er bíræfinn tilfinningaþjófur

Valur Grettisson með fyrstu eintökin af bókinni Gott fólk.
Valur Grettisson með fyrstu eintökin af bókinni Gott fólk.

„Ég hef alltaf verið að skrifa. Ég ætlaði að gerast ljóðskáld þegar ég var ungur maður og gekk svo langt að gefa út ljóðabókina Skýjamyndaárásir þegar ég var 24 ára gamall. Svo skyndilega var mér kippt inn á DV undir ritstjórn Mikaels Torfasonar og Jónasar Kristjánssonar og ég ákvað að einbeita mér að því að vera blaðamaður,“ segir blaðamaðurinn Valur Grettisson sem í vikunni gaf frá sér sína fyrstu skáldsögu sem heitir Gott fólk. Hann segir að skáldið hafi togað í sig.

„Úr varð að ég tók þátt í smásagnasamkeppnum til þess að fá útrás fyrir skáldagáfunni. Þannig tók ég þrisvar þátt í Gaddakylfunni og einu sinni í ástarsagnasamkeppni Vikunnar. Ég endaði alltaf í öðru sæti og var fyrir vikið uppnefndur silfurskáldið af félögum mínum,“ segir hann.

Skömmu fyrir jól 2013 breyttist margt í lífi Vals þegar hann missti vinnuna.

„Vendipunkturinn varð svo skömmu fyrir jól árið 2013 þegar ég var rekinn af Fréttablaðinu. Þá var Hanna Ólafsdóttir, kærasta mín, kasólétt og við eignuðumst okkar annað barn, Illuga, um miðjan nóvember. Þannig fékk ég smá svigrúm til þess að skrifa og byrjaði þá á gamalli hugmynd sem reyndist ansi léleg þegar hún var komin niður á blað. Það var samt ekki fyrr en í desember sem við Hanna vorum að kaupa föt á eldri strákinn sem hugmyndin um ábyrgðarferlið kom og vildi ekki fara úr huga mínum. Ég settist fljótlega niður við tölvuna og fyrstu kaflarnir skrifuðu sig eiginlega sjálfir. Þá þegar fann ég að ég var með eitthvað athyglisvert í höndunum.“

Hvernig blandast ábyrgðarferlið inn í bókina og hvers vegna ertu að spá í því?

„Ábyrgðarferlið er hreyfiaflið í bókinni og vakti áhuga minn af mörgum ástæðum. Meðal annars vegna þess að þarna taka konur, sem telja á sér brotið, réttlætið í eigin hendur og snúa skömminni upp á meinta brotamenn. Vandinn við þetta ferlið er þó það að ásakanirnar geta verið óljósar og það er engin eiginlega refsing kveðinn upp. Þá kemur upp sá vandi í sögunni, að söguhetjan, Sölvi, kannast alls ekki við að hafa brotið á ástkonu sinni. Fyrir vikið þarf söguhetjan að rétta yfir eigin tilfinningalífi og kanna hvernig hann braut á konunni sem sakar hann um andlegt og kynferðislegt ofbeldi.“

Kemur starf þitt sem blaðamaður, fyrst á DV og svo Fréttablaðinu, eitthvað inn í bókarskrifin?

„Já. Ég nota fjölmiðla mikið í sögunni. Söguhetjan vinnur sem menningarblaðamaður og er að auki gagnrýnandi í sjónvarpi. Þetta er heimur sem stendur mér nærri þó ég hafi aldrei unnið sem menningarblaðamaður. Söguframvindan er einnig knúin áfram að einhverju leyti með fjölmiðlum.“

Þegar Valur er spurður að því hvernig hann hafi skrifað bókina segir hann að hann hafi haft líf sitt í föstum skorðum.

„Ég hef alltaf verið nokkuð agað skáld. Ég vaknaði snemma og kom eldri stráknum í skólann og skrifaði svo fram eftir degi. Yfirleitt hætti ég upp úr hádeginu nema þegar ég hafði mjög skýra sýn hvert ég var að fara. Svo er náttúrulega helmingurinn af því að skrifa bók að skipuleggja hana í huganum. Ég reyndi líka að nýta kvöldin í að lesa yfir og betrumbæta kaflana. Svo tók ég helgarfrí og allt saman.

Ég lenti aldrei í neinum sérstökum vandræðum. Það var kannski helst eftir að Bjartur ákvað að gefa bókina út sem ég varð dálítið stressaður, því ég hafði eiginlega ekkert velt því mikið fyrir mér að gefa skáldverkið út, enda orðinn frekar vanur að skrifa ofan í skúffuna. Þannig lokametrarnir voru dálítið strembnir fyrir utan að ég var þá að vinna á fullu.“

Fórstu að horfa öðruvísi á fólkið í kringum þig eftir að þú byrjaðir að skrifa bókina?

„Nei, ekki þannig. Má kannski segja að ég horfi á margan hátt öðruvísi á samfélagið vegna blaðamennskunnar. Munurinn var þó sá að ég var meira vakandi yfir tilfinningum og upplifunum fólks þegar ég skrifaði bókina. Ég stal svo öllum þeim tilfinningum sem mér fannst athyglisverðar eða skemmtilegar. Það mætti segja að ég sé bíræfinn tilfinningaþjófur.

Nýttir þú reynsluna af því að vera rekinn í bókarskrifin?

„Það má frekar segja að ég hafi nýtt reynslu mína sem skáld frekar. Það er frægt að blaðamenn eigi erfitt með að aftengja sig blaðamennskunni og skrifa skáldsögu. Það ágæta við að vera rekinn var að ég sór þess dýran eið að hætta endanlega í blaðamennskunni, enda gífurlega krefjandi og erfitt starf og getur tekið verulega á. Þannig losaði ég mig við alla bagga blaðamennskunnar mjög fljótlega og hóf skrifin með nokkuð skýran huga. En auðvitað entist ég ekki lengi fyrir utan fjölmiðlana. Ég endaði á DV, þar sem ég hóf minn blaðmannaferil fyrir tæpum tíu árum síðan.“

Tókstu það nærri þér að missa vinnuna og hvernig dílaðir þú við það?

„Ég held að allir blaðamenn sem hafa starfað í faginu í lengur en korter taki ekki uppsögn sérstaklega nærri sér. Þetta er kvikur heimur og mikið af sviptingum. Mér var frekar létt heldur en hitt. Ég upplifði tækifæri í því að vera rekinn. Besta leiðin til þess að halda áfram og þróast í betri átt er að upplifa breytingar. Og það er kannski illskásta leiðin til þess að takast á við uppsögn. Ég erfi ekkert við einn eða neinn, enda reyndist þetta hugsanlega með bestu tækifærum sem ég hef fengið í lífinu, og fyrir það er ég bara nokkuð þakklátur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda