Ég er bíræfinn tilfinningaþjófur

Valur Grettisson með fyrstu eintökin af bókinni Gott fólk.
Valur Grettisson með fyrstu eintökin af bókinni Gott fólk.

„Ég hef alltaf verið að skrifa. Ég ætlaði að ger­ast ljóðskáld þegar ég var ung­ur maður og gekk svo langt að gefa út ljóðabók­ina Skýja­mynda­árás­ir þegar ég var 24 ára gam­all. Svo skyndi­lega var mér kippt inn á DV und­ir rit­stjórn Mika­els Torfa­son­ar og Jónas­ar Kristjáns­son­ar og ég ákvað að ein­beita mér að því að vera blaðamaður,“ seg­ir blaðamaður­inn Val­ur Grett­is­son sem í vik­unni gaf frá sér sína fyrstu skáld­sögu sem heit­ir Gott fólk. Hann seg­ir að skáldið hafi togað í sig.

„Úr varð að ég tók þátt í smá­sagna­sam­keppn­um til þess að fá út­rás fyr­ir skálda­gáf­unni. Þannig tók ég þris­var þátt í Gadda­kylf­unni og einu sinni í ástar­sagna­sam­keppni Vik­unn­ar. Ég endaði alltaf í öðru sæti og var fyr­ir vikið upp­nefnd­ur silf­ur­skáldið af fé­lög­um mín­um,“ seg­ir hann.

Skömmu fyr­ir jól 2013 breytt­ist margt í lífi Vals þegar hann missti vinn­una.

„Vendipunkt­ur­inn varð svo skömmu fyr­ir jól árið 2013 þegar ég var rek­inn af Frétta­blaðinu. Þá var Hanna Ólafs­dótt­ir, kær­asta mín, kasólétt og við eignuðumst okk­ar annað barn, Ill­uga, um miðjan nóv­em­ber. Þannig fékk ég smá svig­rúm til þess að skrifa og byrjaði þá á gam­alli hug­mynd sem reynd­ist ansi lé­leg þegar hún var kom­in niður á blað. Það var samt ekki fyrr en í des­em­ber sem við Hanna vor­um að kaupa föt á eldri strák­inn sem hug­mynd­in um ábyrgðarferlið kom og vildi ekki fara úr huga mín­um. Ég sett­ist fljót­lega niður við tölv­una og fyrstu kafl­arn­ir skrifuðu sig eig­in­lega sjálf­ir. Þá þegar fann ég að ég var með eitt­hvað at­hygl­is­vert í hönd­un­um.“

Hvernig bland­ast ábyrgðarferlið inn í bók­ina og hvers vegna ertu að spá í því?

„Ábyrgðarferlið er hreyfiaflið í bók­inni og vakti áhuga minn af mörg­um ástæðum. Meðal ann­ars vegna þess að þarna taka kon­ur, sem telja á sér brotið, rétt­lætið í eig­in hend­ur og snúa skömm­inni upp á meinta brota­menn. Vand­inn við þetta ferlið er þó það að ásak­an­irn­ar geta verið óljós­ar og það er eng­in eig­in­lega refs­ing kveðinn upp. Þá kem­ur upp sá vandi í sög­unni, að sögu­hetj­an, Sölvi, kann­ast alls ekki við að hafa brotið á ást­konu sinni. Fyr­ir vikið þarf sögu­hetj­an að rétta yfir eig­in til­finn­inga­lífi og kanna hvernig hann braut á kon­unni sem sak­ar hann um and­legt og kyn­ferðis­legt of­beldi.“

Kem­ur starf þitt sem blaðamaður, fyrst á DV og svo Frétta­blaðinu, eitt­hvað inn í bók­ar­skrif­in?

„Já. Ég nota fjöl­miðla mikið í sög­unni. Sögu­hetj­an vinn­ur sem menn­ing­ar­blaðamaður og er að auki gagn­rýn­andi í sjón­varpi. Þetta er heim­ur sem stend­ur mér nærri þó ég hafi aldrei unnið sem menn­ing­ar­blaðamaður. Sögu­fram­vind­an er einnig knú­in áfram að ein­hverju leyti með fjöl­miðlum.“

Þegar Val­ur er spurður að því hvernig hann hafi skrifað bók­ina seg­ir hann að hann hafi haft líf sitt í föst­um skorðum.

„Ég hef alltaf verið nokkuð agað skáld. Ég vaknaði snemma og kom eldri strákn­um í skól­ann og skrifaði svo fram eft­ir degi. Yf­ir­leitt hætti ég upp úr há­deg­inu nema þegar ég hafði mjög skýra sýn hvert ég var að fara. Svo er nátt­úru­lega helm­ing­ur­inn af því að skrifa bók að skipu­leggja hana í hug­an­um. Ég reyndi líka að nýta kvöld­in í að lesa yfir og betr­um­bæta kafl­ana. Svo tók ég helg­ar­frí og allt sam­an.

Ég lenti aldrei í nein­um sér­stök­um vand­ræðum. Það var kannski helst eft­ir að Bjart­ur ákvað að gefa bók­ina út sem ég varð dá­lítið stressaður, því ég hafði eig­in­lega ekk­ert velt því mikið fyr­ir mér að gefa skáld­verkið út, enda orðinn frek­ar van­ur að skrifa ofan í skúff­una. Þannig loka­metr­arn­ir voru dá­lítið strembn­ir fyr­ir utan að ég var þá að vinna á fullu.“

Fórstu að horfa öðru­vísi á fólkið í kring­um þig eft­ir að þú byrjaðir að skrifa bók­ina?

„Nei, ekki þannig. Má kannski segja að ég horfi á marg­an hátt öðru­vísi á sam­fé­lagið vegna blaðamennsk­unn­ar. Mun­ur­inn var þó sá að ég var meira vak­andi yfir til­finn­ing­um og upp­lif­un­um fólks þegar ég skrifaði bók­ina. Ég stal svo öll­um þeim til­finn­ing­um sem mér fannst at­hygl­is­verðar eða skemmti­leg­ar. Það mætti segja að ég sé bí­ræf­inn til­finn­ingaþjóf­ur.

Nýtt­ir þú reynsl­una af því að vera rek­inn í bók­ar­skrif­in?

„Það má frek­ar segja að ég hafi nýtt reynslu mína sem skáld frek­ar. Það er frægt að blaðamenn eigi erfitt með að af­tengja sig blaðamennsk­unni og skrifa skáld­sögu. Það ágæta við að vera rek­inn var að ég sór þess dýr­an eið að hætta end­an­lega í blaðamennsk­unni, enda gíf­ur­lega krefj­andi og erfitt starf og get­ur tekið veru­lega á. Þannig losaði ég mig við alla bagga blaðamennsk­unn­ar mjög fljót­lega og hóf skrif­in með nokkuð skýr­an huga. En auðvitað ent­ist ég ekki lengi fyr­ir utan fjöl­miðlana. Ég endaði á DV, þar sem ég hóf minn blaðmanna­fer­il fyr­ir tæp­um tíu árum síðan.“

Tókstu það nærri þér að missa vinn­una og hvernig dílaðir þú við það?

„Ég held að all­ir blaðamenn sem hafa starfað í fag­inu í leng­ur en kort­er taki ekki upp­sögn sér­stak­lega nærri sér. Þetta er kvik­ur heim­ur og mikið af svipt­ing­um. Mér var frek­ar létt held­ur en hitt. Ég upp­lifði tæki­færi í því að vera rek­inn. Besta leiðin til þess að halda áfram og þró­ast í betri átt er að upp­lifa breyt­ing­ar. Og það er kannski ill­skásta leiðin til þess að tak­ast á við upp­sögn. Ég erfi ekk­ert við einn eða neinn, enda reynd­ist þetta hugs­an­lega með bestu tæki­fær­um sem ég hef fengið í líf­inu, og fyr­ir það er ég bara nokkuð þakk­lát­ur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda