Hallgrímur Helgason rithöfundur hefur ýmsa fjöruna sopið. Í nýjustu bók hans, Sjóveikur í München, dregur hann ekkert undan þegar hann lýsir nauðgun sem hann varð fyrir á námsárunum þegar hann var ungur og óharðnaður í námi í Þýskalandi. Í viðtali við Fréttatímann talar hann um þetta.
„Erfiðleikarnir sneru þá mest að því hverju bar að sleppa og síðan hinu: Að horfast aftur í augu við það sem gerðist. Um suma kafla fékk ég þau komment frá yfirlesurum að þeir væru ekki nógu sannfærandi, þá hafði ég ekki þorað að fara alla leið inn í gamlan sársauka. Það var einkum í kafla sem lýsir nauðgun, en það er nú eitt af því sem gerist á lífsleiðinni að manni er nauðgað af ókunnugum manni í erlendri borg. Þetta kom fyrir mig þennan vetur og á endanum varð ég að lýsa því bara í bókinni eins og það gerðist. En ég hafði læst þetta svo djúpt í lífsins skáp að skúffan var nánast ryðguð föst. Sumt í bókinni þurfti ég að ýkja, en þarna þurfti ég að ýkja sjálfan mig til að geta skrifað frekar óýktan kafla. Þetta var orðið eins og sveskjusteinn í sálinni sem var orðinn svo glerharður að ég þurfti virkilega að taka öllu mínu til að ná að leysa hann upp svo hann gæti gengið niður af mér. En allan tímann reyndi ég að skrifa bókina út frá manninum sem ég var 1981, og bætti engum aukahugsunum við frá mér núna, ég kem ekki með neina eftiráspeki, þá hefði bókin líka orðið þúsund síður, sem er kannski fullmikið fyrir einn vetur í lífi manns,“ segir Hallgrímur Helgason í viðtali við Fréttatímann.
Svo eignaðistu konu og börn og allan pakkann, skemmdi það fyrir listamanninum? „Nei, þá var ég tilbúinn til þess, enda orðinn 44 ára gamall og orðinn hundleiður á barlífi. Ég eignaðist dóttur 1984 en var aldrei uppalandi hennar, hún bjó á Höfn á Hornafirði en ég í útlöndum, þannig að sambandið var stopult. Svo eignaðist ég tvö börn, 2003 og 2005, og fór að lifa þessu venjulega fjölskyldulífi, hef verið að því síðan. Sæll og glaður íbúi Skutlheimsins. Ég hef þó enn þörf fyrir einveru og fer þá einn út á land til að skrifa, kannski í mánuð í senn, en þá rekur maður sig á ansi skemmtilegan hlut: Maður saknar fjölskyldunnar! Að auki er ég svo kominn með hund og snjallsíma sem báðum þarf mikið að sinna, þannig að nú er kominn tími á bókartitilinn „Maðurinn er aldrei einn“.“