Jordi Pujolà tók U-beygju í lífinu fyrir um tveimur árum þegar hann ákvað að flytjast til Íslands ásamt fjölskyldu sinni. Jordi er spænskur og var orðinn leiður á ástandinu á Spáni. Hann sagði upp vinnunni sinni, seldi íbúðina og yfirgaf upprunaland sitt til þess eins að elta draumana sína. Nú er hann búinn að gefa frá sér sína fyrstu skáldsögu og þar kemur Ísland aldeilis við sögu.
Sagan ber nafnið, Við þurfum breytingu - Íslenski draumurinn, en hún kom út á Spáni í október. Jordi segir að samkeppnin á rithöfundamarkaðnum á Spáni sé mjög hörð og það hafi verið mjög erfitt fyrir hann að fá bókina út gefna en það hafi tekist og hann sé býsna glaður með það.
„Bókin var kynnt í hinni virtu bókaverslun La Casa del Libro í Barselóna þann 24. október og mættu 150 manns í teitið,“ segir Jordi.
Eins og fyrr segir flutti Jordi til Íslands ásamt eiginkonu sinni, Guðnýju Hilmarsdóttur, og börnum þeirra tveimur. Þau seldu allt sitt hafurtask og keyrðu til Íslands í gegnum Evrópu og sigldu svo með Norrænu til Íslands.
„Ísland hefur lengi verið fyrirmynd fyrir mér aðallega vegna viðbragða íslensku þjóðarinnar við hruninu og kreppunni sem því fylgdi. Á Spáni var lítið gert,“ segir hann. Hann segirst heillast af sjálfstæði Íslands frá Evrópusambandinu og líka vegna orkusjálfbærni landsins.“
Hann er alveg heillaður af Íslandi og segir að það hafi ekki verið annað hægt en að flétta Ísland inn í bókina.
„Það eru endalausar tilvitnanir og í þeim köflum sem gerast hérlendis má lesa um ýmsar venjur Íslendinga,“ segir hann. Bókin er nútíma skáldsaga.
Hann segir að ekki sé um spennusögu að ræða heldur fjalli sagan um tónlistarmann sem er þreyttur á að 1% þjóðarinnar njóti þjóðarauðsins. „Hann ákveður að stofna stjórnmálaflokkinn, Við þurfum tilbreytingu, og stefnir þannig á að geta stjórnað á Spáni. Gagnrýnendur segja að hann ekki eiga séns í stóru flokkana, en hann hlustar á innri rödd sína með orð Gandhi bak við eyrað: „Til að hlutirnir breytist þarftu að byrja á sjálfum þér: Be the change“. Aðalsögupersónan stendur í þeirri meiningu að orkan sem nýtt er í grunnþarfir gæti verið ókeypis og græn. Einnig hvetur hann fólk til að stíga út fyrir þægindarammann til að láta drauma sína rætast,“ segir hann.
Jordi skráði sig í íslensku við Háskóla Íslands þegar hann flutti til landsins, en hvað ætlar hann að gera við tungumál sem aðeins 350.000 manns tala?
„Ég var alltaf með það á hreinu. Ég er Katalónskur og í Katalóníu stöndum við í því sama, með að halda katalónskunni á lofti gagnvart spænskunni, eins og Íslendingarnir íslenskunni gagnvart enskunni. Ég kom hingað til að aðlagast samfélaginu.“
Jordi varð hissa á ótrúlegustu hlutum þegar hann flutti til Íslands. Það sem hann hjó sérstaklega eftir var að fólk lækkaði ekki í ofnunum hjá sér.
„Það að opna gluggann í staðinn fyrir að lækka í kyndingunni, ef það er of heitt inni; sjá fólk fara úr skóm á tannlæknastofunni; borga fyrir smá upphæðir með kreditkorti, skilyrðislaus stuðningur þjóðarinnar við landsliðin. Þetta þekkist ekki á Spáni - þar vantar alla samheldni,“ segir hann.
Aðspurður hvað honum finnist best við Ísland nefnir hann víðáttuna.
„Einnig finnst mér fyndið þegar ég heyri fólk kvarta undan umferðaöngþveiti í Reykjavík, sem er ekkert miðað við Barselóna eða Madríd. Í Reykjavík finnst mér frábært að búa og þurfa ekki að fara út fyrir hana til að komast í snertingu við náttúruna. Frelsið sem börnin búa við er ómetanlegt. Á Spáni njóta börn ekki þessa sjálfstæðis að geta farið ein út að leika. Mér finnst gott að hafa kvöldmatartíman svona snemma og geta melt matinn almennilega áður en kemur að háttatíma.“
Bókin hans Jordi verður fáanleg á Borgarbókasafni Reykjavíkur fljótlega og er hann að vinna í því að þýða hana yfir á íslensku.