„Ég veit ekki hvort þið hafið heyrt það, en ég skrifaði smá á twitter um daginn. Ég meinti ekkert slæmt með því og allra síst átti tístið að vera særandi fyrir fólk, hvorki fólk sem býr í Neskaupstað eða annars staðar. En það var það samt og meira að segja á Selfossi móðgaðist fólk, þótt þar hafi aldrei fallið snjóflóð og ég er ekki einu sinni viss um að það séu fjöll þar. Í hausnum á mér virkaði þetta tíst sem vangavelta um það hvort hægt væri, í samráði við fólkið á staðnum, að nýta þessa 2,5 milljarða með öðrum og betri hætti. Ég hefði ekki átt að segja að það góða fólk ætti að nýta peninginn til að flytja í bæinn. Það var glatað hjá mér - af því þetta fólk langar sjálfsagt ekkert að flytja í bæinn og fólk á að búa þar sem það vill. Mér þykir fyrir því að hafa sært tilfinningar fólks, það var óviljandi og ég ætla að passa mig betur í framtíðinni,“ segir Gísli Marteinn á facebooksíðu sinni og heldur áfram:
„Síðast þegar ég sagði að ég hataði ekki landsbyggðina gerði Mogginn sérstaka frétt um það. Það fannst mér fyndið. En það er kannski kominn tími til að segja það aftur. Mér líkar nefnilega vel við landsbyggðina, þótt ég hafi alla ævi búið í Reykjavík og elski borgina mjög heitt. Eins og fjölmargir hafa sagt í þessari umræðu, þá þarf borgin á landsbyggðinni að halda, og landsbyggðin á borginni.“