Greta Salóme vakti heimsathygli þegar mynd af henni, þar sem bossinn gægist undan stuttum svörtum leðurbuxunum, birtist á forsíðu Fréttablaðsins. Þegar Smartland Mörtu Maríu hafði samband við Gretu Salóme sagði hún að boðskapur lagsins ætti svo sannarlega við núna.
„Boðskapur lagsins er að hunsa neikvæðar raddir og að vera jákvæð rödd sjálfur. Ég er sannfærðari núna en nokkurn tímann áður um að þetta sé nauðsynlegur boðskapur. Myndbirtingin hefur heldur betur ýtt undir það og ég hef verið ótrúlega ánægð með hvernig umræðan þróaðist og það styrkti okkur í þeirri trú að keppnin er ekki aðalatriðið heldur boðskapurinn. Ég kippi mér ekki upp við þetta í eina sekúndu. Þetta hefur bara verið staðfesting á hversu nauðsynlegur boðskapurinn er,“ segir Greta Salóme.
Þegar Greta Salóme er spurð út í búninginn segir hún að það hafi aldrei komið til greina að hafa hann öðruvísi.
„Ég hannaði búninginn með góðu fólki. Það var enginn að velta því fyrir sér hvernig ljósmyndarar vinna, myndvinnslan á laginu fyrir sjónvarp er þannig að þetta kom aldrei til álita,“ segir hún.