Eva Pandora Baldursdóttir, nýkjörinn þingmaður Pírata, lét sig ekki vanta í kvöldverðarboð hjá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.
Eva Pandora, sem býr á Sauðárkróki, gat ekki tekið dóttur sína með sér í boðið en stúlkubarnið fæddist í september síðastliðinn. Þar sem barnið er á brjósti tók hún brjóstapumpuna með til þess að geta tappað af í teitinu.
Eva Pandora er fædd 1990 og er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Þaðan útskrifaðist hún 2010 en þá lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hún lauk B.Sc.-prófi í viðskiptafræði 2013. Svo stundaði hún MA-nám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst 2014–2015 og MPA-diplómanám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands 2016.
Hún var viðskiptafræðingur hjá Fjárvakri 2012–2015. Skipuleggjandi ferða hjá Iceland Travel 2015–2016 og viðskiptafræðingur hjá KPMG 2016.
Hún er alþingismaður Norðvesturkjördæmis síðan 2016.