Athafnamaðurinn Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, er skilinn við eiginkonu sína til 30 ára og er nú á lausu. Hann var kvæntur Sigríði Ýr Jensdóttur lækni. Séð og heyrt greinir frá þessu.
Róbert hefur verið áberandi í viðskiptalífinu en hann er líka með mikla hjóladellu en árið 2015 sagði hann í viðtali við hjólablaðið Pedala að hann hafi náð af sér kílóunum með hjólreiðum. Hann var kominn í þriggja stafa tölu. Þegar viðtalið var tekið 2015 var hann kominn niður í 94 kg.
„Ég byrjaði á því að taka þátt í þríþraut og gekk bara nokkuð vel. Ég kunni ekkert að synda og var við það að drukkna fyrstu ferðina yfir sundlaugina. Ég var alltaf þokkalega góður hlaupari en fann að ég var langbestur í að hjóla. Ég lenti í smá hnjaski áður en ég gat klárað þriðju þríþrautina og eyðilagði á mér öxlina en kláraði tvær af þremur. Svo þegar ég var orðinn góður í öxlinni byrjaði ég að hjóla af krafti og tók þátt í keppnum þrjú sumur í röð, 2011, 2012 og 2013.“
Hvað er það við hjólreiðarnar sem er svona heillandi?
„Þetta er góð leið til að kúpla sig alveg frá daglegu amstri. Þú ert úti að hjóla í tvo tíma og jafnvel þótt veðrið sé vont, rok og rigning, þá hef ég alltaf jafngaman af því. Ég hlusta á tónlist ef ég er einn eða fer út að hjóla með hóp. Fyrir mér er þetta góð aðferð til að hreinsa hugann, góð líkamsrækt og góð aðferð til að halda sér í formi. Þessar vikur sem mikið er að gera og maður ferðast mikið og kemst ekki að hjóla, maður saknar hjólreiðanna mikið.“