Sterkar konur í forgrunni

Erlendur Sveinsson.
Erlendur Sveinsson.

Erlendur Sveinsson stundar nám í leikstjórn við Columbia University í New York. Hann býr í Brooklyn ásamt konu sinni, Helgu Jóakimsdóttur. Hann leikstýrði nýjasta myndbandi East of My Youth við lagið Stronger. Sigga Regína framleiddi myndbandið, Markus Englamair sá um kvikmyndanatöku og Helga stíliseraði það. Erlendur er alsæll í New York. 

„Við höfum verið hér í rúmlega þrjú ár og kunnum virkilega vel við okkur. Námið er mjög krefjandi og ég hef verið mikið í auglýsingagerð samhliða því svo það er alltaf nóg að gera. Ég hef fengið að kynnast senunni í New York ansi vel og hef kynnst frábæru fólki,“ segir Erlendur sem er höfundur nýjasta myndbands East of My Youth við lagið Stronger. 

„Ég þekki Herdísi og Thelmu vel og er mikill East of My Youth aðdáandi svo þegar þær höfðu samband við mig um að gera myndband var þetta aldrei spurning. Lagið talaði strax til mín og bauð upp á eitthvað virkilega spennandi,“ segir hann. 

„Ég held að það séu ótal leiðir til að túlka frásögnina í myndflæðinu en í hugmyndavinnuni leytaðist ég eftir leið til að sýna styrk í frumlegu samhengi. Mig langaði að sýna nærmynd af konu sem væri atvinnu „bodybuilder“ og væri búin að eiga farsælan feril í faginu en væri að eldast og komin yfir blóma ferilsins. Myndbandið átti alltaf að vera einhverskonar heimildarmynd um þessa konu og lagði ég af stað í ferðalag inn í „bodybuilding“ senuna í New York sem var ansi áhugavert og gefandi,“ segir hann. 

Erlendur segir að það hafi tekið töluverðan tíma að finna réttu manneskjurnar í myndbandið. 

„Eftir ótal tölvupósta, símtöl og hittinga endaði ég á því að finna þrjár konur sem voru allar mjög ólíkar en áttu það sameiginlegt að vera helteknar af lyftingum og æfingum svo ég ákvað að hafa myndbandið þrískipt.

Sú fyrsta var Elise sem býr á Long Island. Hún er IFBB pro fitness módel sem er búin að vera lengi í bransanum. Hún æfir tvisvar á dag, er einstæð móðir og er búin að upplifa marga erfiðleika í lífi sínu. Hún er algjör töffari með frábært lífsviðhorf og er að undirbúa sitt comeback í senunni.

Svo kom Gloria. Hún býr í Chinatown og kenndi íþróttir í grunnskóla í yfir 30 ár og gerðist svo einkaþjálfari. Hún stundar Thai Chi, skokkar á ströndinni og dansar við Erobic myndbönd heima hjá sér á hverjum morgni. Hún var nýbúin að missa manninn sinn þegar ég hitti hana en hann hafði verið lengi veikur. Hún er að byrja líf sitt uppá nýtt segir hún og er að elta æskudraum sinn um að verða leikkona.

Að lokum var það Ashley. Hún býr í Staten Island og er NY fylkismeistari í Ólympískum lyftingum. Hún er virkilega metnaðarfull og stefnir á Ólympíuleikana. Hún var í sjóhernum í mörg ár og talar vel um þá reynslu. Hún er einstæð móðir og býr með syni sínum í NY og vinnur hart að markmiðum sínum,“ segir hann. 

Erlendur segir að konurnar þrjár hafi verið ótrúlega opnar og hlýlegar. 

„Við tökurnar á myndbandinu voru þær allar ótrúlega opnar og hleyptu okkur inn á heimilið sitt þar sem við mynduðum þeirra rútínu í bak og fyrir. Ég held að hver og einn upplifi myndbandið á sinn hátt. Ég lagði ekki upp með einhvern sérstakan boðskap heldur laðaðist ég að karakterunum og vildi sýna glugga inn í líf þeirra. Ég sé margt sameiginlegt með líkamsrækt og trúarbrögðum. Fólk tilbiður líkama sinn og líkamsræktarstöðin er kirkjan. Það varð svo myndræna nálgunin sem við völdum.“

Þegar Erlendur er spurður að því hvað sé framundan segist hann vera á kafi í verkefnavinnu í skólanum. 

„Þessa stundina að leggja lokahönd á handrit í fullri lengd og er að undirbúa útskriftarmyndina mína úr skólanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda