Jóhanna Vigdís Arnardóttir eða Hansa eins og hún er oftast kölluð prýðir forsíðu mars tölublaðs MAN sem kemur út á morgun. Hansa hefur líklega aldrei haft jafn mikið að gera og undanfarin ár. Í leikhúsinu hefur hún fengið hvert risahlutverkið á fætur öðru en skemmst er að minnast Mary Poppins þar sem hún fór með titilhlutverkið og nú Mamma Mia sem sýnt hefur verið fyrir fullu húsi í heilt ár. Hlutverk Donnu í Mamma Mia verður þó hennar síðasta í bili, því hún fer í launalaust leyfi frá Borgarleikhúsinu í haust og vendir sínu kvæði svo sannarlega í kross með því að taka við starfi hjá Samtökum iðnaðarins.
Hansa er gift Þorsteini Helga Guðbjörnssyni og eiga þau saman tvo syni; Ólaf Örn sem er 11 ára og Þorstein Ara sem er níu ára. Fyrir átti Þorsteinn svo tvö börn Helga Hrafn og Vigdísi Birnu sem eru 18 ára og tvítug. Hansa viðurkennir að fjarvera hennar vegna starfs síns hafi verið farin að taka sinn toll af heimilislífinu.
„Ég mæti niður í leikhús klukkan sex og oftar en ekki mætumst við hjónin í dyragættinni, hann er þá að koma heim og ég að fara út. Þessi löngun til að breyta til og hugsa sér til hreyfings er auðvitað mikið til komin vegna þessa; mig er farið að langa að vera á sama sólarhring og restin af fjölskyldunni. Ég er orðin vön því að vera út úr myndinni þegar verið er að skipuleggja eitthvað á vegum fjölskyldunnar eða vinanna, þá er mitt viðkvæði alltaf: „Ekki gera ráð fyrir mér“.
Nú þegar maður er orðinn miðaldra er kominn tími til að fara að ráða sér sjálfur,“ segir Hansa ákveðin en hún verður 49 ára gömul á árinu.
„Maður verður bara að taka á honum stóra sínum og fara að stjórna sér, láta ekki aðra um það með einhverri húsbóndahollustu.“
Hansa segir synina ekki þekkja neitt annað en að mamma vinni öll kvöld.
„Svo eiga þeir alveg frábæran pabba. En hann er auðvitað orðinn pínu þreyttur á þessu og hefur réttilega bent mér á að starf mitt stjórni ekki einungis mínu lífi heldur lífi okkar allra. Það er eðlilega ekki nógu gaman. Þegar maður fer að forgangsraða áttar maður sig á því að það er fjölskyldan sem skiptir mestu máli.“