Mary, krónprinsessa Danmerkur, skellti sér í afmælisveislu Haraldar Noregskonungs í gær, en hann fagnaði áttræðisafmæli sínu.
Krónprinsessan hefur löngum verið þekkt fyrir að nýta fatnað, skart og skrautmuni vel, sem hún sýndi og sannaði enn á ný í veislunni.
Mary bar kórónu á höfðinu, en skartgripurinn er þannig gerður að hann má bæði nota sem höfuðskraut og hálsmen.
Eins og fram kemur í frétt Daily Mail hefur krónprinsessan nokkrum sinnum skartað djásninu, og sást hún fyrst með það árið 2015 þegar hún sótti Gala-kvöldverð til heiðurs Margréti Danadrottningu. Þá kaus hún að nota skartgripinn sem hálsmen. Á síðasta ári bar hún skartið á höfðinu í veislu sem haldin var í Amalíuborg.