Kristinn R. Ólafsson, útvarpsmaður, þýðandi, leiðsögumaður o.fl. og Anna Baldvina Jóhannsdóttir, launafulltrú hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, gengu óvænt í hjónaband um helgina. Þau buðu vinum og fjölskyldu til garðveislu og sumargleði á heimili sitt í Kópavogi en létu svo pússa sig óvænt saman. Séra Einar Eyjólfsson, sem er prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði, gaf hjónin saman.
„Við erum búin að vera saman í fjögur og hálft ár og okkur langaði bara til að gifta okkur. Þetta var ekki gert út af neinum praktískum ástæðum,“ segir Kristinn.
Þau buðu til garðveislu og höfðu brúðkaupið sem „óvæntu kvöldsins“ eins og nýyrðasmiðurinn Kristinn R. kallaði það í boðskortinu til gesta. Þau slógu upp tveimur stórtjöldum í garðinum hjá sér og báðu um gott veður. Yfirleitt verða um 25% afföll þegar gestum er boðið í partí en svo var ekki í þessu tilfelli og fögnuðu 90 manns með þeim Kristni og Önnu.
„Þetta var afskaplega gaman. Þjóðlagasveitin Hrafnar spilaði nokkur lög. Ég átti hönk upp í bakið á þeim, eða þannig, því að ég hef samið nokkra texta fyrir þá. Og þeir svo elskulegir að mæta og koma fjörinu af stað,“ segir hann.
Þegar ég spyr hann hvar hann hafi hnotið um ástina segir hann að leiðir þeirra Önnu hafi legið saman úti á lífinu.
„Við kynntumst úti á lífinu og eins og annað fólk og gengum tvö yfir Tjörnina ísilagða daginn eftir og síðan hefur þetta verið farsæl vegferð,“ segir hann og brosir.
Samtals eiga Kristinn R. og Anna sjö barnabörn en hann á eina dóttur fyrir og hún tvö börn en Anna tvö börn, Friðrik Þór og Selmu Dögg og fimm barnabörn. Það var því glatt á hjalla þegar þau voru formlega gefin saman. Alda Ólafsson Álvarez, dóttir Kristins R., kom sérstaklega til Íslands en hún er búsett í Madríd á Spáni ásamt manni sínum og börnum.
„Frændur mínir úr Bæjaraættinni sungu síðan og spiluðu fram eftir: þeir Ólafur Ástgeirsson, sonur Ása í Bæ, Jóhann Pálmason og Kári Gunnlaugsson stigu á vörubrettasvið og hófu gítarleik og söng sem ég tók þátt í eftir bestu getu með söng og klapplist en ég er fóðurbróðir hins fyrstnefnda en afabróðir hinna tveggja. Allt miklir stuðboltar og alvanir tjaldsöngvarar á Þjóðhátíð. Þetta heppnaðist vel í alla staði,“ segir Kristinn R.