Smartland Mörtu Maríu hefur tekið saman lista yfir bitastæðustu einhleypu konur landsins. Þessar konur eru ekki bara huggulegar heldur vel menntaðar kjarnakonur.
Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir er einn af eigendum og stofnendum Attentus sem að gefur fyrirtækjum ráð um mannauðstjórnun. Ingunn er hámenntuð, klár og hörkudugleg kona sem er ekki hrædd við að eltast við drauma sína.
Sunneva Eir Einarsdóttir er 21 árs samfélagsmiðlastjóri hjá umboðsskrifstofunni Eylenda. Hún er með rúmlega 15 þúsund fylgjendur á Instagram þar sem hún þykir myndarleg og flott kona og fólki finnst gaman að fylgjast með ævintýrum hennar.
Maríanna Garðarsdóttir er yfirlæknir á Röntgendeild Landspítalans. Hún er einnig formaður félags íslenskra röntgenlækna og forseti Norrænu samtakanna. Maríanna er algjör dugnaðarforkur.
Selmu Björnsdóttur er margt til lista lagt en hún er söngkona, leikkona og leikstjóri. Selma leikur eitt af aðalhlutverkum í bíómyndinni Undir trénu sem verður frumsýnd í ágúst.
Herdís Þorgeirsdóttir er hámenntaður lögfræðingur sem starfar á sviði mannréttinda. Hún er sjálfstætt starfandi og situr í stjórn evrópsku lagaakademíunnar.
Unnur Eggertsdóttir er 25 ára gömul leikkona. Unnur sló í gegn í búningi Sollu stirðu en flutti síðar til Bandaríkjanna til að leggja stund á leiklist. Hún býr nú í Los Angeles og er að gera það gott.
Anna Marsibil Clausen er 27 ára og stundar meistaranám í blaða-og fréttamennsku í Berkeley í Kaliforníu. Anna Marsibil vann lengi á mbl.is og hefur verið áberandi í þjóðmálaumræðunni.
Elín Metta Jensen er 22 ára landsliðskona í fótbolta. Hún hefur spilað sem framherji fyrir Val síðan árið 2010 en hún skellti sér út í nám til Florida State háskóla árið 2015, rétt eftir að hún útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík. Elín er að fara keppa í Evrópumeistaramótinu í Hollandi sem byrjar 16. júlí.
Ragnhildur Sveinsdóttir er nýorðin fertug. Ragnhildur er flott og veraldarvön kona og hefur búið víða. Ragnhildur býr í Barcelona en hún var gift knattspyrnumanninum Eiði Smára Guðjonshen.
Kristbjörg Kjeld er 82 ára og er ein af ástsælustu leikkonum þjóðarinnar. Hún á farsælan leikferil að baki sér þar sem hún hefur leikið í mörgum af stærstu kvikmyndum á Íslandi. Kristbjörg hefur unnið mikið af verðlaunum fyrir leik sinn en hreppti Grímuna fyrr í sumar fyrir leikkonu ársins í aukahlutverki.
Dóra Jóhannsdóttir er 36 ára gömul leikkona. Dóra þykir ein fyndnasta kona landsins en hún fer fyrir spunahópnum Improv Ísland auk þess að vera hasla sér völl sem leikstjóri.