Söngvarinn Geir Ólafsson og Adriana Patricia Sanchez Krieger gengu í hjónaband á sunnudaginn. Parið var gefið saman í Bústaðakirkju af Pálma Matthíassyni. Eftir hjónavígsluna buðu brúðhjónin til veislu í Petersen-svítunni í Gamla bíói. Þar söng brúðguminn fyrir brúði sína og gesti.
„Ég var búinn að ákveða fyrir löngu síðan að ég vildi kvænast Adriönu. Ég veit ekki hvort ég er svona gamaldags en mér finnst skipta miklu máli fyrir barnið okkar að við foreldrarnir séum í hjónabandi. Það veitir ákveðið öryggi,“ segir Geir Ólafsson, spurður að því hvers vegna þau hafi látið pússa sig saman.
Veðrið lék við hjónin á brúðkaupsdeginum. Geir segir að þessi stund verði lengi í minnum höfð.
„Þetta var yndisleg stund, mjög tilfinningaleg stund. Þetta var stund sem ég mun aldrei gleyma,“ segir hann einlægur og bætir við:
„Það var magnað að sjá konuna sína labba inn kirkjugólfið í kjólnum.“
Í veislunni sungu Ingó veðurguð og Kristján Jóhannsson. Ingó söng lagið Wonder of you sem Elvis Presley gerði vinsælt á sínum tíma og Kristján söng Ave Marie. Auðvitað mættu Furstarnir, sem er hljómsveit Geirs Ólafssonar, og sungu í kirkjunni. Bandið tróð einnig upp í brúðkaupsveislunni sjálfri sem haldin var í Petersen-svítunni.
Boðið upp á pinnamat, naut, lamb og Sushi og komu veitingarnar frá Múlakaffi. Auk þess var boðið upp á rauðvín, hvítvín og bjór. Í eftirrétt var risabrúðkaupsterta frá Sveinsbakaríi.
„Ég tók að sjálfsögðu lagið og það var yndislegt,“ segir Geir.
Útvarpsmaðurinn Siggi Hlö var í brúðkaupinu og segir Geir að hann hafi haldið hjartnæma ræðu.
„Ég var snortinn af ræðu Sigga Hlö, það var magnað að góði vinur minn skyldi bera þennan hug til mín. Ég vissi ekki að ég hefði haft svona góð áhrif á hann. Ingó veðurguð hélt einnig svo fallega ræðu að fólk táraðist. Ég er þakklátur þeim sem komu og sýndu okkur virðingu og vinsemd á brúðkaupsdeginum,“ segir Geir.
Þegar ég spyr hann hvað sé fram undan segir hann að eiginkona hans sé á leið í brúðkaupsferð.
„Konan mín er að fara ein í brúðkaupsferð. Hún er að fara til Kólumbíu og svo ætlum við að sjá til eftir áramótin. Hugsanlega ætlum við að fara í brúðkaupsferð í Karabíska hafið,“ segir hann.
Hjónin eiga dótturina Önnu Rós sem er 18 mánaða.
„Hún heillar alla upp úr skónum. Ég á mjög erfitt verkefni fram undan því ég á svo erfitt með að segja nei við hana. Ég er svolítið meir yfir því að mæðgurnar séu að fara en ég er að vinna mikið þessa dagana og er að undirbúa jólatónleika sem ég verð með í Gamla bíó.“