Spurningin sem brennur á vörum landsmanna er: Hvers vegna voru leikkonan Pamela Anderson og Kristinn Hrafnsson ritstjóri WikiLeaks saman í gær að heimsækja Julian Assange í öryggisfangelsi í Lundúnum? Eru þau par?
Mánuður er frá því Assange var handtekinn í sendiráðinu í Ekvador í Lundúnum og var hann í síðustu viku dæmdur í 50 vikna fangelsi fyrir að brjóta reglur varðandi reynslulausn sína í Bretlandi fyrir sjö árum. Bandarísk stjórnvöld hafa einnig farið fram á að fá hann framseldan fyrir að hafa framið samsæri um tölvuinnbrot ásamt uppljóstraranum Chelsea Manning árið 2010.
En eru Pamela Anderson og Kristinn Hrafnsson par? Samkvæmt heimildum Smartlands tengjast þau í gegnum Assange, sameiginlegan vin sinn. Anderson á í ástarsambandi við Adil Rami sem er franskur fótboltamaður en erlenda pressan hefur mikið velt því fyrir sér hvort það sé eitthvað á milli hennar og Assange. Tíðar heimsóknir hennar í sendiráð Ekvador í Lundúnum hafa vakið forvitni eins og mbl.is hefur áður greint frá.
Kristinn og Assange hafa starfað saman í fjölda ára vegna WikiLeaks og hefur vinátta þeirra verið mikil og djúp. Það er því ekki óeðlilegt að hans bestu vinir, Kristinn og Anderson, mæti saman til að heimsækja hann.