Brynjar Níelsson Alþingismaður er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Brynjar hefur lengi verið þekktur á vettvangi stjórnmálanna fyrir að þora að viðra óvinsælar skoðanir. Hann hefur gengið lengst íslenskra Alþingismanna í að gagnrýna aðgerðir vegna Covid faraldursins.
„Þetta snýst um meira en bara sóttvarnir. Þetta snýst um heilt samfélag og líf og heilsu fólks að öðru leyti líka. Þetta er miklu stærri mynd, en auðvitað er sóttvarnarteymið bara að hugsa um sóttvarnir, sem er þeirra hlutverk.
En við stjórnmálamennirnir eigum að hugsa um heildarmyndina. Við í stjórnmálunum berum á endanum ábyrgðina og við þurfum að taka þessa umræðu í heild miklu miklu betur. Ég er ekki að segja að ég viti þetta allt best, en ég vil víkka þessa umræðu og þá sérstaklega hvort ekki sé hægt að vernda viðkvæmustu hópana betur án þess að það hafi svona mikil áhrif á líf allra. Það er alltaf reynt að enda þessa umræðu bara strax og afskrifa þá sem vilja spyrja meiri spurninga,“ segir Brynjar og heldur áfram:
„Þetta snýst ekkert bara um frelsi, heldur líka heilsu, af því að ef við lokum öllu bara áfram, þá hefur ríkissjóður á endanum mun minni pening til að setja í heilbrigðismál. Ég get alveg verið án frelsis í einhvern tíma, en ég er miklu meira að hugsa um tengslin milli efnahagslegra hamfara og lífs og heilsu fólks.“
Hann segist sakna þess að stjórnmálamenn horfi á heildarmyndina og þori að taka umræðu um hana, jafnvel þó að hún sé óþægileg á köflum.
„Bara lokunin á ferðamannaiðnaðinum var 300 milljarða tap fyrir ríkissjóð og við þolum það ekkert ár eftir ár ef við ætlum að halda uppi sömu kjörum í landinu. Spurningin í mínum huga sem við verðum að spyrja er hvort menn ætli bara að halda áfram í sömu lokunum með sama tjóni áfram kannski í allan vetur án þess að það sé rætt neitt frekar hvaða áhrif það hefur til lengri tíma? Stóra spurningin er líka hvort þetta sé svo mikið neyðarástand að það réttlæti þessar aðgerðir í svona langan tíma og ég upplifi að fólk vilji ekkert mikið taka þá umræðu.
Fæstir í stjórnmálunum vilja mikið ræða þetta, af því að það er of óþægilegt. Því miður upplifi ég það hjá kollegum mínum. Mér finnst umræðan svolítið vera komin þangað að bóluefnið sé bara að fara að koma og redda okkur og þá er málið útrætt. En hvað með tímabilið þangað til virknin er af því er komin fram? Hefur þetta alvarlegar aukaverkanir þetta bóluefni? Og til að byrja með verður fyrst og fremst farið í að bólusetja afmarkaða hópa og þá er veiran enn laus gagnvart hinum. Það mun taka langan tíma og eiga allar lokanir að vera í gangi þann tíma?”
Hann segist ekki jafn sannfærður og sumir um að bóluefni sé töfralausn sem reddi öllu eftir nokkra mánuði og segir ekki hægt að að skylda fólk til að taka bóluefni við Covid 19:
„Þú gætir aldrei gert það með sjúkdóm af þessu tagi. Þú gætir gert það með sjúkdóma sem voru hér sem stráfelldu fólk, eins og bólusótt, berklar og mislingar og fleira, en ekki sjúkdóm sem er með jafn lága dánartíðni og Covid. Ég efast mjög stórlega um að allur meirihluti íslensku þjóðarinnar vilji láta bólusetja sig og það er önnur umræða sem við þurfum að taka.
Í þættinum ræða Sölvi og Brynjar um grundvallaratriði í stjórnmálum, eins og til dæmis hve mikil umsvif ríkisins eigi að vera, mikilvægi þess að kjósendur viti hvar þeir hafi þá sem þeir kjósa til valda og margt margt fleira
Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og í spilaranum hér fyrir neðan: