Björn Ingi Hrafnsson var áberandi á blaðamannafundum á árinu sem er að líða, reyndar svo áberandi að forsætisráðherra spurði í beinni útsendingu hvar hann væri þegar hann sat heima. Árið 2021 stefnir Björn Ingi á að huga að heilsunni og útskrifast úr sagnfræði.
Árið 2021 verður ekki síðra en Björn Ingi stefnir á að huga að heilsunni og útskrifast úr sagnfræði.
„Hápunktar ársins 2020 fyrir mig persónulega voru tveir. Yngsta barnið mitt og einkadóttirin, hún Björk Von, hóf skólagöngu í haust í fimm ára bekk Ísaksskóla og það hefur verið alveg yndislegt að taka fyrstu skrefin á skólagöngunni með henni, þótt Covid-19 hafi auðvitað sett sín strik í þann reikning eins og annað. Björk Von er mikill augasteinn föður síns og hún nýtur þess að eiga eldri bróður í sama skóla, þannig að ég tek þátt í samfélaginu kringum skólann af lífi og sál, er formaður foreldrafélagsins og nýt þess að vera börnum mínum til halds og trausts. Næstelsti drengurinn minn hóf líka menntaskólagönguna í haust, en hefur eiginlega alveg sótt skólann fram að þessu gegnum netið og ég dáist að eljunni í honum og þeim árangri sem hann hefur náð þrátt fyrir þessar fáránlegu aðstæður,“ segir Björn Ingi um hápunkta ársins 2020.
„Svo er ég líka stoltur af því að hafa skrifað heilmikla bók um veirufaraldurinn hér á landi sem kom út síðla sumars og að hafa dekkað þau mál rækilega með því að sækja vel á annað hundrað upplýsingafundi almannavarna. Þessa dagana vinn ég að seinna bindi um sama efni og vonandi verður hægt að ramma þetta sögulega tímabil áður en langt er liðið af nýju ári, svo við getum farið á fullt í að koma landinu aftur á fulla ferð.“
Lágpunktur ársins 2020?
„Lágpunktur ársins er að heyra röksemdir fólks sem finnst að allir aðrir en það sjálft eigi að færa fórnir í heimsfaraldri. Reglur um fjarlægðarmörk, grímunotkun og fjöldatakmörk eigi ekki við um það, heldur okkur hin.“
Skrýtnasta augnablikið árið 2020?
„Þegar ég sat heima meðan ríkisstjórnin hélt blaðamannafund vegna efnahagsaðgerða og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurði í beinni útsendingu „Hvar er Björn Ingi?“
Hvernig ætlar þú að fagna nýju ári?
„Í faðmi nánustu fjölskyldu hér heima, enda fagnar Hrafn faðir minn 75 ára afmæli á gamlárskvöld. Það verður gott að kveðja þetta sögufræga ár, þótt það hafi líka kennt okkur margt.“
Hvernig leggst nýtt ár í þig?
„Mjög vel. Ég held að mikil og góð tíðindi muni berast af bólusetningu þjóðarinnar á fyrstu dögum nýs árs og þau tíðindi muni færa okkur óendanleg tækifæri í framhaldinu.“
Áramótaheit fyrir 2021?
„Ég ætla að halda áfram að huga að heilsunni, hreyfa mig og rækta líkama og sál. Takmarkið er að geta bent á einhverja magavöðva næsta sumar, það væri gaman að skarta þvottabretti kringum 48 ára afmælið. Annars vona ég bara að heilsan leiki við mitt nánasta fólk og að ég útskrifist í árslok úr sagnfræði í Háskólanum. Ég tók upp á því í haust að hefja þar aftur nám eftir meira en tuttugu ára hlé og langar að klára gráðuna á því herrans ári, 2021.“
Ætlar þú að vera duglegri að gera eitthvað árið 2021 en þú varst árið 2020?
„Ég ætla að ferðast meira og njóta þess að vera í sveitinni okkar. Kófið og bókarskrif dæmdu mig svolítið úr þeim leik síðasta sumar og ég hyggst bæta börnunum mínum og sjálfum mér það upp næsta sumar. Meðal annars ætla ég að dvelja svolítið á slóð forfeðranna í Hrísey, en fram undan er að skrifa sögu langalangafa míns, Hákarla-Jörundar.“
Réttur ársins í eldhúsinu þínu?
„Hægeldaðir lambaskankar með rótargrænmeti. Við feðgar höfum margsinnis eldað þá kringum Tottenham-leiki í ensku knattspyrnunni. Ég á forláta slow-cook-pott, þar sem allt er látið malla daginn langan og ilmurinn er búinn að gera alla brjálaða úr hungri loksins þegar sest er að kræsingunum. Hægeldun gerir kjötið líka svo mjúkt og safaríkt, að það hreinlega mígur í munni, eins og amma mín Ella heitin hefði orðað það.“
Besta bók ársins?
„Snerting, eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, sem kom út fyrir jólin. Meistaraverk.“
Besta kvikmynd ársins?
„Druk eftir Thomas Winterberg.“
Bestu þættir ársins?
„The Trial of Christine Keeler.“
Besta lag ársins?
„Esjan með Bríeti.“