Veðurguðirnir verða að haga sér

Gunnar Birgisson ætlar norður um páskana.
Gunnar Birgisson ætlar norður um páskana. Ljósmynd/Ragnari Visage

Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður á RÚV, vonast til þess að komast á skíði um páskana en ferðinni er heitið norður í land. Hann segir litlu fjölskylduna sína geta valið úr mörgum páskaboðum og þakkar hann dóttur sinni vinsældirnar.

Hvað ætlar þú að gera um páskana í ár?

„Ég og fjölskylda mín förum líklegast norður í ár ef guð og lukkan leyfir. Þá er komið við á Sauðárkróki og Siglufirði, og að sjálfsögðu í Fljótunum. Þar verður líklegast farið eitthvað á skíði og notið samvista vina og ættingja sem maður sér alltof sjaldan,“ segir Gunnar.

Ertu með einhverjar hefðir um páska sem þú verður að halda í?

„Nei ég hef ekki verið með neinar hefðir þannig séð, en fyrir veirutímabilið var orðið fastur liður að taka þátt með einhverju móti á skíðagöngumóti í Fljótum á föstudeginum langa og er stefnan sett á að endurvekja það góða mót í ár þannig að nú biður maður bara til veðurguðanna að haga sér fram yfir páska og gefa okkur smá snjó.“

Hefurðu upplifað páskahefðir í öðru landi?

„Það hefur nú bara verið í Noregi og Svíþjóð og ekkert þar sem er frábrugðið því sem ég hef gert hérna heima. Þessar þjóðir eru auðvitað ekki með páskaeggin eins og við eigum að venjast hér heima en Norðmenn til dæmis elska marsípan og allt sem því tengist og á páskum og jólum úða þeir í sig alls konar marsípannammi. Einnig er tíminn þar nýttur til að komast í fjöllin og á skíði áður en snjórinn hverfur og haldið er inn í sumarið.“

Gunnar er gamall skíðagöngukappi.
Gunnar er gamall skíðagöngukappi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borðar þú mörg páskaegg?

„Nei, hef svona reynt að halda mig við eitt en það sem er eiginlega verst er að ég klára það yfirleitt fyrir páskadag. Smá bitar hingað og þangað vikuna fyrir páska gera mér svo sem engan greiða en þetta er auðvitað algjört grín hvað þetta er gott.“

Ertu öflugur í eldhúsinu um páskana?

„Það fer eftir því hvort kærastan mín á eftir að lesa þetta eða ekki. Ef ekki, þá er ég með þríréttað föstudag til sunnudags með allt frá humarsúpum upp í hreindýrasteikur. Aftur á móti ef hún rekst á þetta þá sér hún um eldhúsið í flestum tilvikum og gerir með glæsibrag, mér hefur þótt nauðsynlegt að hafa lambahrygg eða lambalæri á gamla mátann allavega einu sinni en er mjög opinn fyrir nýjungum.“

Hafa páskahefðirnar breyst eftir að þú varðst pabbi?

„Já það verður ekki sagt annað, Anna Sóley dóttir mín, er mikill sælkeri eins og pabbi hennar og hún er svona fyrst núna á þriðja aldursári að fatta svolítið um hvað þetta snýst og farin að spyrja mig ansi oft út í súkkulaðipáskaeggin sem standa undantekningarlaust fremst í búðum. Það er í raun bara tímaspursmál hvenær hún fer að sjá í gegnum lygar pabba síns. Nú fer maður að setja upp leit fyrir hana á sunnudeginum og verður gaman að sjá hana kljást við vísbendingar foreldra sinna og eitthvað sem segir mér að þolinmæðin verði ekki mikil. Einnig hefur hennar tilkoma gert það að verkum að allir fjölskyldumeðlimir vilja fá okkur eða hana sem mest til sín yfir páska og því hefur páskaboðunum fjölgað til muna.“

Hefurðu farið í eftirminnilegt ferðalag um páska?

„Það eru þá helst bara þessar ferðir með fjölskyldunni minni oftar en ekki til Noregs í æfinga- og keppnisferðir á yngri árum sem standa upp úr. Mikið skíðað, mikið spilað og mikið gaman. Einnig þykir mér ofboðslega vænt um að kíkja heim á Sauðárkrók eða Siglufjörð og skipta um umhverfi og heimsækja ættingja og vini.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál