Var á leið heim úr ríkinu þegar kallið kom

Helgi Thorshamar hætti að drekka 2012 og hefur verið edrú …
Helgi Thorshamar hætti að drekka 2012 og hefur verið edrú síðan 1. apríl það ár.

Helgi Torshamar var á leið heim úr ríkinu þegar síminn hans hringdi og honum var boðið pláss í meðferð á Hlaðgerðarkoti. Hann afþakkaði. Ætlaði að fresta því enn um sinn að taka til í lífi sínu en eitthvað varð til þess að honum snerist hugur og hann hringdi til baka og sagðist myndu koma. Þetta var í lok mars árið 2012 og frá 1. apríl sama ár hefur hann verið edrú. Hann segir sögu sína í Samhjálparblaðinu sem var að koma út.  

„Ég var í vinahópi sem samanstóð af olnbogabörnum,“ segir Helgi.

„Flestir í mínum vinahópi, bæði stelpur og strákar, voru úr ákveðnu hverfi og allt krakkar sem komu af brotnum heimilum. Mörg alin upp við alkóhólisma. Það var gott að eiga athvarf hjá þeim og með þeim en við byrjuðum tólf til þrettán ára að fikta við neyslu. Ég og besti vinur minn bjuggum hlið við hlið og það var fullt af óreglufólki í hverfinu okkar. Það var mjög auðvelt fyrir okkur að nálgast áfengi og sígarettur. Þetta var ekki slæmt fólk en tíðarandinn var annar þarna á níunda áratug síðustu aldar.

Ég fann, eins og flestallir alkóhólistar, þessa deyfingu um leið og ég byrjaði að drekka. Áfengið deyfði en mér leið aldrei vel. Ég varð strax alkóhólisti en ég náði aldrei þeim botni að missa allt, verða heimilislaus og allslaus. Ég náði alltaf að halda utan um hlutina að einhverju leyti. Ég tolldi auðvitað misjafnlega í vinnu þegar ég var ungur og vitlaus. Ég var líka í tónlist og fór að spila á böllum og maður sukkaði og það voru skvísur, bara sá pakki. Maður er eiginlega búinn að henda þessu aftur fyrir sig. Maður hélt að þetta væri gaman.

Svo kynntist ég konunni minni. Hún er líka óvirkur alkóhólisti og til að byrja með vorum við eiginlega bara drykkjufélagar. Hún átti eina dóttur fyrir sem ég lít á sem mitt barn og við eignuðumst stelpu saman. Þær eru báðar dásamlegar en eldri dóttir mín var svolítið mótuð af því sem var að gerast á heimilinu. Hún þurfti að upplifa það sem ég upplifði og konan mín því hún ólst líka upp við svipaðar aðstæður og ég. En svo ágerist þetta og fjarlægðin milli okkar hjóna jókst þar til gjáin var orðin það breið að við drukkum hvort í sínu lagi. Hún náði að fela þetta miklu betur en ég. Svo kom að þeirri stund í mínu lífi að ég missti algjörlega stjórn á þessu.“

Helgi er tónlistarmaður.
Helgi er tónlistarmaður.

Missti tvo feður og afa á einu ári

Hvað varð til þess?

„Ég náði að tengjast föður mínum aftur,“ segir hann. „Milli okkar var einnig gjá. Við náðum ekki að tengjast fyrr en 2003. Ég sættist við hann og það myndaðist vinskapur á milli okkar. Ég átti líka fósturföður sem var ofboðslega góður maður. Það var þarna tímabili sem ég átti tvo feður. Pabbi náði að kynnast konunni minni og stelpunum mínum. Ég var auðvitað að drekka á þessum tíma en ég fann hvað það var gott að eiga hann líka að. Árið 2009 missti ég fósturpabba minn. Hann fékk hjartaáfall og það gríðarlegt áfall fyrir mig en ég sýndi það ekki. Ég hugsaði með mér að ég gæti alltaf leitað til föður míns en nokkrum mánuðum síðar hringdi hann í mig og sagði mér að hann væri kominn með krabbamein. Á einu ári missti ég fósturföður minn, pabba minn og afa minn og hvað gerir maður? Leitar í flöskuna.

Ég náði samt að halda vinnu og var í góðri vinnu en þetta voru orðnir fjórir til fimm dagar í viku sem ég drakk og hið sama gilti um konuna mína. Hún náði einhvern veginn að fela það. Á Þjóðhátíð 2011 kom barnaverndarnefnd inn í aðstæður hjá okkur. Þá var yngri stelpan tíu ára. Við fengum aðvörun. „Ef þið gerið ekki eitthvað verður barnið tekið.“ Konan mín fór í meðferð í Hlaðgerðarkot strax eftir Þjóðhátíðina og kom til baka en ég var ennþá í neyslu. Þá hugsaði maður; vá hvað mér líður illa. Hún edrú og ég fór að kenna henni um hversu illa mér leið. En um áramót 2011–2012 voru þær farnar upp á land. Konan mín var búin að gefast upp á mér og farin með stelpurnar. Ég var einn og hugsaði með mér; jæja, er ekki kominn tími til að láta reyna á þetta?“

Hér er Helgi í fjallgöngu.
Hér er Helgi í fjallgöngu.

Afþakkaði plássið en hringdi aftur

Það varð þó ekki strax. Helgi hélt enn áfram en í byrjun mars 2012 hringdi hann í Hlaðgerðarkot og óskaði eftir innlögn.

„Mér var sagt að bið eftir plássi væri tveir mánuðir en ég ætti að hringja daglega. Mér fannst það fínt, ég gæti þá bara drukkið meira. Í lok mánaðarins var svo hringt frá Hlaðgerðarkoti og sagt: „Þú getur komið inn á mánudag.“ Ég var á leið úr Ríkinu með flöskur í poka og svaraði: „Heyrðu, ég ætla aðeins að hugsa þetta. Ég hugsa að ég komi ekki. Ég ætla aðeins að fresta þessu.“

En svo staldraði ég við, fór að hugsa. Það var bara eitthvað sem sagði mér að ég þyrfti að fara, eitthvað kom yfir mig. Ég hringdi aftur svona hálftíma seinna og sagði: „Heyrðu, ég kem.“ Svo datt ég í það, var fullur í tvo daga og fór inn á Hlaðgerðarkot 2. apríl en ég hef ekki drukkið síðan 1. apríl 2012. Það er ekki aprílgabb,“ segir hann og hlær.

Þarna höfðu orðið straumhvörf. Hvaða öfl voru að verki og leiddu Helga inn á Hlaðgerðarkot er ekki gott að segja en þarna hófst bataferillinn.

„Ég var náttúrlega í rusli þegar ég kom þarna inn,“ segir hann. „Ég kynntist mörgu góðu fólki þarna inni og eignaðist góða vini. Ég sá líka að það voru margir í miklu verri stöðu en ég var nokkurn tíma. Þarna inni gerast hlutirnir. Þar mætti Drottinn mér. Dag einn var ég inni í bænastund, en þær eru á hverjum degi, það var eitthvað verið að tala og ég hélt ekki athygli. Mér varð litið út um gluggann og sá eitthvert ljós fyrir utan, það var eins og ára eða ljóshjúpur, og engu líkara en það væri að benda mér að koma til sín. Ég var alinn upp í trú og hafði haldið minni barnatrú en þarna fóru hlutirnir að ganga. Það voru ótrúlegir hlutir sem gerðust þarna inni.“

Hélt að allt væri búið

Erfiðleikarnir voru samt ekki fyllilega að baki. Helgi hafði enn ekki unnið úr þeim áföllum sem hann hafði upplifað.

„Já, svo útskrifaðist ég bara,“ heldur hann áfram. „Stefán Geir Karlsson ráðgjafi sagði við mig: „Ég hef engar áhyggjur af þér.“ Og ég hugsaði með mér: jess. Þegar ég útskrifaðist í maí hélt ég að allt væri búið en svo kom ég heim og allt var við það sama. Andrúmsloftið milli mín og konunnar var óbreytt og ég fór í bullandi fíkn. Hún ákvað að fara bara. Þetta var í kringum goslokahátíð og ég sat eftir einn heima. Ég var kominn alveg á brúnina, fór til mömmu og sagði henni hvernig mér leið. Hún sagði mér strax að ég yrði að tala við einhvern. Ég hringdi í einn vina minna sem er óvirkur og talaði aðeins við hann. Það var ágætissamtal en þessi vinur minn er ekki trúaður svo að ég hringdi í annan vin sem er trúaður og fór heim til hans.“

Vinirnir töluðu saman um stund en þrátt fyrir að Helgi hefði leitað sér aðstoðar linaði það ekki vanlíðan hans. Hann hafði meðal annars gengið framhjá Ríkinu og tvístigið nokkrum sinnum áður en hann ákvað að fara ekki inn og eitthvað leiddi hann áfram.

„Já, mér leið áfram ógeðslega illa. Ég gekk um og var að ganga framhjá Hvítasunnukirkjunni. Konan mín hafði sótt samkomur þar og ég hugsaði með mér; ókei, ég verð að fara hérna inn. Fyrsti maðurinn sem mætti mér var Guðni Hjálmarsson. Ég vissi hver hann var og hann vissi hver ég var. Við höfðum aldrei talað saman en ég vissi strax að ég yrði að tala við þennan mann. Þetta var um sexleytið og hann var að undirbúa bænastund klukkan átta. Hann sagðist samt ætla að gefa sér tíma til að tala við mig.

Við fórum inn á skrifstofu og þar opnaði ég mig um allt. Allar mínar tilfinningar lagði ég bara á borðið. Upp frá þessu hefur vinskapur okkar vaxið og dýpkað og frá þessu augnabliki hefur ganga mín verið upp á við. Hann sagði mér að koma á samkomu um kvöldið. Ég fór og þegar ég heyrði Unni og Simma syngja í fyrsta sinn á samkomunni fannst mér þau vera að syngja inn í líf mitt. Þá heyrði ég í fyrsta sinn lagið „Faðir minn gerðu mig að keri“ sem talaði beint inn í mínar aðstæður.

Faðir minn gerðu mig að keri,

hreinu og tæru, lifandi af trú. 

Með lofsöng til þín, lifandi ljós skín,

frá því keri sem mótar þú.

Svo kom að því að Árný Hreiðarsdóttir, sem er mikil bænakona, sagði: „Það er einstaklingur hér inni, ég veit ekki hver hann er en hann þarfnast bænar.“ Ég tengdi þetta strax við mig, steig fram og það var myndaður um mig bænahringur.“

Eftir þetta fór Helgi að venja komur sínar á samkomur.

„Ég man svo vel að ég sat alltaf aftast fyrst en kom æ oftar og fór að færa mig framar eftir hverja samkomu,“ segir hann. „Um tveimur mánuðum síðar kom Simmi til mín og sagði: „Helgi! Komdu hérna upp og spilaðu með okkur.“ Það var óvenjulegt því ég var ekki frelsaður. Það sagði enginn neitt en upp frá því fór ég að spila og spila. Þetta varð til þess að allt lagaðist milli mín og konunnar minnar og við giftum okkur í kirkjunni, höfðum verið í sambúð fram að því.“

Byrjuðu með tvær hendur tómar

Helgi hefur gefið út fallega gospelplötu. Var það þarna sem þú byrjaðir að spila þannig tónlist?

„Nei, inni í Hlaðgerðarkoti fór ég að hlusta á lofgerðartónlist. Ég var með gítar með mér og fór að spila og semja,“ segir hann. „Ég hef samið fullt af lofgerðarlögum sem eru á Lindinni. En annað sem mig langar að nefna, eftir meðferðina byrjuðum við með tvær hendur tómar. Við vorum í leiguhúsnæði, með skuldir á bakinu, en í dag eigum heimili og skuldum ekki annað en lítil húsnæðislán. Við erum búin að byggja ákveðinn grunn undir líf okkar. Mjög fljótlega eftir samtal okkar Guðna sá hún þá breytingu sem hafði orðið á mér og við náðum aftur saman. Fyrst eftir það fór ég upp á eitthvert ský og sveif þar en svo náði ég lendingu og þá varð allt mun jarðbundnara. Plötuna gaf ég út þegar ég var á skýinu. Svo hef ég farið í önnur verkefni í tónlistinni. Auðvitað eru sumir dagar erfiðir og það hefur ýmislegt komið upp á.“

Torshamar er ekki íslenskt nafn, en Helgi er ættaður frá Færeyjum.

„Ég elska Færeyjar og fer þangað reglulega. Ég er ¾ Færeyingur. Ég fer að minnsta kosti einu sinni á ári, stundum tvisvar. Það er bara til að halda rótunum. Ég á auðvitað skyldfólk þarna,“ segir hann. „Vestmannaeyjar minna mig að hluta á Færeyjar. Það er margt keimlíkt.“

Ertu fæddur hér á landi?

„Ég fæddist úti. Þau bjuggu aldrei saman, foreldrar mínir. Þetta voru unglingaástir sem entust ekki. Mamma eignaðist svo annað barn, stelpu sem er tveimur árum yngri en ég, með íslenskum manni. Hún kynntist svo öðrum Íslendingi og við fluttum til Íslands árið 1978.“

Grunnskólagangan erfið

Fjölskyldan flutti fyrst til Seyðisfjarðar því þangað átti íslenska amma Helga ætti að rekja. „Á Seyðisfirði stoppuðum við örstutt, svo fórum við til Vestmannaeyja. Ég veit ekki alveg hver ástæðan var. Ætli fólk hafi ekki verið að elta vinnuna. Í minningunni gekk þetta að minnsta kosti fljótt fyrir sig. Kannski hef ég lokað á þetta að einhverju leyti.“

Varstu sáttur við að koma hingað?

„Ég ólst upp hjá ömmu minni, sem var íslensk og ég elskaði og dáði, og afa sem dó 1976. Ég átti líka ömmu og afa í Tórshavn sem voru færeysk og þau hef ég líka elskað allt mitt líf af öllu hjarta. Mín æska var mikið lituð af alkóhólisma og því umhverfi sem honum fylgir. Ég hef aldrei ásakað neinn.“

Var þá tungumálið að þvælast fyrir þér? Íslenska og færeyska eru auðvitað skyld mál en alls ekki eins.

„Nei, ég var alinn upp við bæði tungumálin. Ég talaði auðvitað ekki góða íslensku fyrst þegar ég kom hingað en ég náði henni fljótt. Grunnskólaganga mín var engu að síður ekki góð. Ég náði aldrei sambandi við námið. Ég er greindur með ofvirkni og athyglisbrest og átti rosalega erfitt með að einbeita mér. Ég er þannig enn þann dag í dag. Ég er góður í skapandi greinum. þar næ ég góðri einbeitingu, til dæmis í tónlist og ljósmyndun. Ég er einnig mjög skipulagður og samviskusamur í vinnu og sinni henni vel. 

Í skóla var maður bara kallaður tossi á þessum tíma. En ég átti góðan kennara að. Hún heitir Ólöf Magnúsdóttir og var sæmd riddarakrossi árið 2022 fyrir framlag til sérkennslu og málefna barna með fötlun. Hún hefur hjálpað mörgum börnum sem voru eftir á í þroska og líka „tossunum,““ segir Helgi. „Ég á henni mikið að þakka. Ég var mikið í sérkennslu hjá henni í grunnskóla og þar kynntist ég líka fleiri börnum sem líkt var komið á með, við þurftum stuðning. Þeirra á meðal var minn besti æskuvinur. Hann var í sama pakka og ég og var fyrsti vinurinn sem ég eignaðist eftir að ég flutti hingað. Við höfum haldið okkar vinskap alveg síðan. Ég á einnig Unni Baldursdóttur kennara mikið að þakka.“

Helgi starfar sem háseti á Herjólfi og við tónlistarflutning. Hann er í þremur hljómsveitum fyrir utan Lofgjörð. Nýlega spilaði hann á Eyjatónleikum í Hörpu og hann kemur reglulega fram á samkomum í Hvítasunnukirkjunni í Eyjum. Við þetta bætist svo ljósmyndunin, en það áhugamál skipar stöðugt stærri sess í lífi hans.

„Líf mitt tók U-beygju eftir að ég hætti að neyta áfengis,“ segir hann. „Ljósmyndun, fjallgöngur og ferðalög komu í staðinn fyrir Bakkus. Mér finnst yndislegt að geta sinnt tónlistinni allsgáður og finnst ekkert skemmtilegra en að vera á sviði og spila fyrir fólk, hvort sem það er í Lofgjörð, á tónleikum eða á balli. Ég elska að ferðast og við förum hjónin utan ár hvert, jafnvel tvisvar til þrisvar á ári stundum. Mínar bestu stundir á ég þegar ég er með konu minni, dætrum og barnabarni. Ég á svo mörgum að þakka lífsbjörg mína og í því sambandi vil ég helst nefna Guðna og Guðbjörgu, forstöðuhjónin í Hvítasunnukirkju Vestmannaeyja, sem hafa vafið okkur hjónin og börnin okkar í kærleik og ástúð. Milli okkar hefur myndast dýrmæt vinátta, auk þeirra þau mætu og yndislegu hjón Unni og Simma, Högna Hilmis, Árna Óla og andlegu móður mína Árnýju Hreiðarsdóttur. Móðir minni Dinnu, systkinum, Hvítasunnukirkju Vestmannaeyja, Samhjálp, Hlaðgerðarkoti, trúsystkinum, vinum og samferðafólki vil ég einnig þakka. En mín mesta lífsbjörg er Drottinn, sem er minn klettur og skjól hvern dag.“

Helgi hefur sýnt myndir á ljósmyndasýningunni Vestmannaeyjar gegnum ljósopið og í kirkjunni hans hangir ljósmynd af krossinum í Eyjum böðuðum Norðurljósum sem hann tók.

Það gefur honum mikið að í hvert sinn sem hann gengur þar inn blasir hún við honum, tákn um sigur og von.

Helgi Thorshamar og Kristín Guðmundsdóttir.
Helgi Thorshamar og Kristín Guðmundsdóttir.

Helgi og konan hans, Kristín Guðmundsdóttir voru í viðtali við Samhjálparblaðið árið 2015. Þar segir Kristín söguna af því hvernig þau tóku saman.

„Helgi var í hópi rokkara i leðurjökkum og mér fannst þeir svakalegir töffarar,“ segir Kristín. „Ég reyndi hvað ég gat til að kynnast þeim en með misgóðum árangri. Við fórum síðan að vinna saman hjá Ísfélaginu árið 1998 en ég var í öðru sambandi þá og eignaðist dóttur þetta sama ár. Við skildum og ég fór að kynnast Helga betur en hann var í hljómsveit og var að spila mikið um helgar á pöbbunum. Einhvern tíma fór ég heim til hans um helgi þegar hann var að spila og fór að sofa. Þegar hann kom heim var ég því bara sofandi í rúminu hans og hann hefur eiginlega ekki losnað við mig síðan.“

Kristín fór í meðferð árið 2011 en þá var ástandið á heimilinu orðið erfitt og hún vissi að hún gæti ekki haldið þessu líferni áfram. Um það segir hún:

„Það fór ekki mikið fyrir gleðinni á heimilinu á sunnudögum, mánudögum og þriðjudögum. Það var ekki verið að tala mikið saman heldur voru leiðindin allsráðandi. Spennan var mikil i loftinu og stelpurnar fundu fyrir því. Við vorum alltaf að rífast og það var farið að bitna á öllum í kringum okkur.“

Helgi og Kristín rífast ekki lengur. Þau geta talað saman og leyst málin. Síðar í viðtalinu segir að enginn hafi haft trú á að þau gætu orðið edrú en í Hlaðgerðarkoti hafi þau öðlast ólýsanlegan kraft. Þakklætið hafi þau í öndvegi í lífinu og þannig er það enn þann dag í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál